Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Aðflugan á það til að setjast að“

Mynd með færslu
 Mynd: Hjálmar - RÚV

„Aðflugan á það til að setjast að“

17.06.2019 - 12:55

Höfundar

Hjálmar halda hringferð sinni áfram um landið og áttu leið um Hveragerði. Þar hittu þeir fyrir hinn ástsæla tónlistarmann Magnús Þór Sigmundsson, þar sem þeir þáðu kaffi og sögu að aðflugum.

Hjálmar gáfu út fyrir skemmstu plötuna, Allt er eitt og héldu af stað af því tilefni í sína fyrstu hringferð um landið. Hjálmar fagna 15 ára starfsafmæli sínu og munu þeir koma fram á 15 tónleikum víðs vegar um landið. Einn af þeim stöðum sem þeir hafa heimsótt nú þegar er Hveragerði en þar býr einn ástsælasti tónlistarmaður landsins, Magnús Þór Sigmundsson. „Ég er búinn að vera í Hveragerði síðan árið 2001, þar áður var ég á Laugaveginum í Reykjavík, beint fyrir ofan Reðasafn Íslands,“ segir Magnús.
 
Hjálmar þáðu kaffi og óskuðu eftir því að fá að spila með Magnúsi eins og eitt lag og taka það upp um leið á fjögurra rása upptökutæki. Magnús tók vel í erindið, ekki við öðru að búast, og lagið sem varð fyrir valinu er nýtt lag sem flögrað hefur í hausnum á höfundi sínum í góðan tíma. „Fyrst var þetta bara hugleiðing sem ég skrifaði, svo bætti ég viðlagi við hana. Síðan fór ég að tína inn í þetta sönghæfar setningar, síðastliðið eitt og hálft ár og núna er þetta orðið klárt,“ segir Magnús um lagið Aðfluguna.

Magnús Þór og Hjálmar taka Aðflugu Magnúsar að heimili tónlistarmannsins í Hveragerði.

„Aðflugan er svolítið skemmtilegt lag, við fáum stundum ákveðnar þráhyggjur við konan mín. Þegar hún fékk eina þráhyggjuna þá finnst mér hún svo leiðinleg að ég bjó til Aðfluguna, það er einhver fluga í hausnum á þér,“ segir Magnús Þór um lagið. „Svo fattaði ég að ef mér finnst þráhyggjan leiðinleg þá eru leiðindin mín. Ég lagfærði textann og gerði hann svona alhliða.“

Magnús segir að oft séu hugmyndir að flögra um og hann sé alltaf eitthvað að semja. „Ég samdi tvo texta núna í vikunni. Ég var eitt sinn í London, þegar ég var á samningi þar. Þá vildu þeir kynna mig fyrir lagasmið. Ég fór heim til hans og hann segir við mig „Mig langar að sýna þér nýjasta lagið mitt“ og kemur svo bara með texta. Ég las textann yfir og spurði hvernig lagið yrði, „Það skiptir engu máli, það fer eftir söngvaranum,“ svaraði kappinn,“ segir Magnús.

Mynd með færslu
 Mynd: Hjálmar - RÚV

Næstu tónleikar Hjálma á hringferðinni verða fyrir austan um helgina, í Berufirði á laugardag og á Seyðisfirði á sunnudag. Frekari upplýsingar um hringferð Hjálma má nálgast á Facebook-síðu hljómsveitarinnar.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Ég er hérna svona af og til“

Popptónlist

Reggí gott af Reykjanesi

Tónlist

Nýtt vín á gömlum belg frá Júníusi Meyvant

Popptónlist

Hjálmar - Allt er eitt