Aðeins það "ljóta og leiðinlega" skattlagt

Mynd: Shutterstock / Shutterstock

Aðeins það "ljóta og leiðinlega" skattlagt

27.07.2015 - 13:58

Höfundar

Græn skattkerfisbreyting var umfjöllunarefni Stefáns Gíslasonar í pistli hans í Samfélaginu.

Græn skattkerfisbreyting er hugtak sem lætur ef til vill ekki kunnuglega í eyrum en hlýtur þó að verðskulda nokkra athygli í hugum þeirra sem telja þörf á að sveigja af þeirri braut neyslu og auðlindaeyðingar sem mannkynið virðist vera á þessi misserin. Hugtakið er oft kennt við Dr. Ernst Ulrich von Weizsäcker, núverandi varaforseta Rómarklúbbsins, sem skrifaði um það heila bók árið 1992. Sjálfur heyrði ég fyrst einhverja umræðu í þessa veru í fyrirlestri hjá Richard nokkrum Welford vorið 1998, en þá sagði hann að kominn væri tími til að hætta að skattleggja það sem væri gott og skemmtilegt, til dæmis laun sem unnið væri fyrir með heiðarlegum hætti, og skattleggja í þess stað það sem væri ljótt og leiðinlegt, til dæmis vörur sem hefðu mikil neikvæð áhrif á umhverfið.

 

Í skýrslu sem Umhverfisstofnun Evrópu gaf út í janúar árið 2012 er græn skattkerfisbreyting, eða Ecological Tax Reform eins og hugtakið nefnist á ensku, eða bara ETR, skilgreind sem „endurskoðun á skattkerfi á landsvísu með tilfærslu á skattbyrði t.d. frá vinnuafli yfir á athafnir sem skaða umhverfið, svo sem ósjálfbæra auðlindanotkun eða mengun“. Í skýrslunni kemur fram að slík breyting geti haft ferns konar áhrif. Í fyrsta lagi hækki verð á tilteknum vörum eða athöfnum og í öðru lagi hafi dreifing teknanna sem þannig skapast áhrif sem slík. Í þriðja lagi geti breytingin leitt af sér ný störf og græna nýsköpun og síðast en ekki síst muni vel útfærð græn skattkerfisbreyting hafa í för með sér umhverfislegan ávinning, t.d. með því að draga úr mengun.

 

Grænni skattkerfisbreytingu er ekki ætlað að fela í sér aukna skattbyrði þegar á heildina er litið, heldur snýst málið eingöngu um tilfærslu milli skattstofna. Skattbyrðin er sem sagt að „einhverju eða jafnvel öllu leyti flutt af launatekjum yfir á neyslu, þar sem skattlagning neyslunnar ræðst af áhrifum hennar á umhverfi og samfélag“, svo vitnað sé í skýrslu Alþingis um eflingu græns hagkerfis frá því á árinu 2012. Sú skýrsla virðist, samkvæmt Google, vera ein af örfáum heimildum á íslensku um þetta hugtak dagsins, hvar sem þessi ágæta skýrsla er annars niðurkomin í dag.

 

Í fyrrnefndri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu er á það bent að umhverfisskattar hafi mikilvægu hlutverki að gegna í því að örva nýsköpun. Það sýni fjöldinn allur af rannsóknum sem gerðar hafi verið á þessu sviði. Með því að hækka skatta á mengun og aðrar umhverfisskaðlegar athafnir geti stjórnvöld aflað fjár til að styðja við umhverfisvæna nýsköpun, t.d. í orkumálum. Upp úr þessu geti þróast nýjar tæknilausnir sem geti orðið að mikilvægri útflutningsvöru.

 

Í skýrslu sem IEEP, þ.e.a.s. Institute for European Environmental Policy, skrifaði fyrir umhverfisráðuneyti Hollands á síðasta ári er rýnt í tilburði einstakra Evrópulanda til að gera skattkerfið grænna. Þar kemur fram að hvergi séu menn komnir svo langt á þeirri leið að hægt sé að tala um græna skattkerfisbreytingu, heldur hafi einstök ríki, og í sumum tilvikum Evrópusambandið í heild, fetað sig áfram í örlitlum skrefum á þessari leið með því að skattleggja einstakar athafnir sem hafa neikvæð áhrif á umhverfið og nýta fjármagnið til að styðja við grænni þróun á sama sviði. Dæmi um þetta séu skattar á jarðefnaeldsneyti, flugfarþega og urðun úrgangs.

 

Nú kann einhver að spyrja hvaða erindi vangaveltur um gjörbyltingu á skattkerfinu eigi við hlustendur Samfélagsins á Rás 1. Almenna svarið við þessari spurningu er að þessum hlustendahópi sé ekkert óviðkomandi, svo fremi sem það geti vakið umhugsun eða verið einhverjum til gagns. Í þessum hlustendahópi eru líka eflaust margir sem velta því fyrir sér hvað þurfi eiginlega að gerast til að við tökum upp umhverfisvænni lífsstíl, þ.e.a.s. lífsstíl sem er gerður til að endast, eða með öðrum orðum hvaða tólum og tækjum sé hægt að beita til að þvinga þróunina í þessa átt. Græn skattkerfisbreyting er einmitt dæmi um slíkt tól eða tæki. Oft er reyndar talað um að stjórnvöld hafi þrenns konar tæki til að hafa áhrif á hegðum fólks eða lífsstíl. Þetta eru í fyrsta lagi boð og bönn, í öðru lagi hagrænir hvatar og í þriðja lagi upplýsingar. Breytingar á skattkerfinu falla undir hagræna hvata í þessari upptalningu. Þarna liggja sem sagt tækifæri fyrir stjórnvöld til að stuðla að þróun sem hentar komandi kynslóðum betur en einhver önnur þróun.

 

Sumir verða ákaflega önugir þegar minnst er á breytingar á skattkerfinu, hvernig sem þær breytingar eru annars á litinn. Þá er gjarnan sagt að stjórnvöld eigi að leyfa markaðnum að þróast í friði í stað þess að reyna að stýra honum með skattlagningu. Í þessari umræðu vill oft gleymast að guð skapaði ekki skattkerfið sem við búum við núna, heldur byggir það á ákvörðunum fyrri stjórnvalda, sem höfðu sjálfsagt hvorki meiri skilning á muninum á réttu og röngu en núverandi stjórnvöld, né höfðu þær upplýsingar á reiðum höndum sem við höfum nú. Skattkerfi er jú mannanna verk hvernig sem á það er litið og það er ólíklegt, alla vega frá tölfræðilegu sjónarmiði, að það skattkerfi sem við búum við í þeirri andrá sem þessi orð eru töluð sé hið eina rétta.

 

Eins og ég nefndi áðan er erfitt að finna dæmi um róttækar breytingar á skattkerfi einstakra ríkja til að gera það grænna, heldur er frekar hægt að tala um hikandi smáskref. Það er nefnilega auðveldara að tala fyrir breytingum en að hrinda þeim í framkvæmd, jafnvel þótt núverandi kerfi sé ábyggilega meingallað eins og flest önnur mannanna verk. Það myndi t.d. skekkja samkeppnisstöðuna verulega ef eitt tiltekið ríki myndi ákveða að fella niður alla tekjuskatta og leggja í staðinn jafnháa skatta á neyslu sem hefur neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag, jafnvel í hárréttu hlutfalli við þessi neikvæðu áhrif. Þetta myndi þýða að fólk fengi miklu meira upp úr launaumslaginu sínu en að sama skapi myndi verð á ýmsum vörum hækka verulega. Þá væri augljóslega freistandi að fá laun í þessu landi, en gera innkaupin hinum megin við landamærin þar sem tekjuskattar eru enn háir en neysluskattar lágir.

 

Niðurstaðan er einföld: Stjórnvöld geta notað skattkerfið til að hafa áhrif á neyslumynstur fólks, komandi kynslóðum til hagsbóta. En það er erfitt að vera fyrstur og því sjálfsagt best að gera þetta í smáum skrefum. Aðalatriðið er að vita hvert maður ætlar, því að annars er hætt við að maður lendi einhvers staðar annars staðar, eins og Laurence Peter orðaði það. Þeir sem halda því fram að stjórnvöld geti ekkert gert til að gera skattkerfið, hagkerfið, já eða bara samfélagið grænna, hafa rangt fyrir sér.