
Aðeins höfuðið stóð upp úr öldunum
Roar Aagestad átti leið um þegar mennirnir lentu í hættu í fjörunni og náði myndum af atvikinu. Hann segir að mennirnir hafi allir komist á þurrt en holdvotir. Roar telur að einstök heppni hafi ráðið því að maðurinn sem féll í fjörunni hafi ekki sogast út með kraftmiklum öldunum.
Roar segir að ekki hafi fleiri lent í hættu á þessum tíma. Hann kveður glæfralegt að sjá fólk sæta lags og fara framfyrir stuðlabergsklettinn inn í víkina þegar sjórinn skellur á landinu af miklum krafti. Straumurinn sé afar sterkur þegar öldurnar brotna í flæðarmálinu og renna aftur til sjávar.
Algengt er að fólk stofni sér og sínum í hættu í Reynisfjöru. Aðeins er liðin rúm vika síðan leiðsögumaður bjargaði tveimur börnum úr lífsháska í Reynisfjöru. Hann sá hjón með tvö ung börn í fjörunni og hugðist kalla varnaðarorð til þeirra. Áður en tími gast til þess kom stór alda og gleypti börnin. Leiðsögumaðurinn hljóp af stað og náði að koma báðum börnunum til bjargar.
Tvö banaslys urðu í sjónum við Reynisfjöru, árið 2007 og 2016. Erlend kona lést af völdum höfuðáverka eftir fall á göngustíg við fjöruna árið 2018.
Leiðrétt: Fjöldi banaslysa hefur verið leiðréttur.