Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Aðdáendur munu kalla eftir fleiri bókum

Mynd: Kiljan / RÚV

Aðdáendur munu kalla eftir fleiri bókum

21.12.2017 - 17:02

Höfundar

„Ég hef ekkert nema gott um þessa bók að segja,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir, bókmenntagagnrýnandi, um þriðju bók Vilborgar Davíðsdóttur um Auði Djúpúðgu sem heitir Blóðug jörð. Gagnrýnendur Kiljunnar rýndu í bókina.

Blóðug jörð er lokakaflinn í þríleik Vilborgar Davíðsdóttur um landnámskonuna Auði djúpúðgu. Fyrri bækurnar gerast að mestu á Írlandi og í Skotlandi en í þessari síðustu bók kemur Auður til Íslands. „Hún byrjar þessa bók með glæsibrag, með orrustulýsingu, kafli sem virkilega hreyfir við manni og er sterkasti kafli bókarinnar,“ segir Kolbrún, og Sigurður Valgeirsson tekur undir það. „Ég er sammála, þessi orrustukafli í byrjun, hann eiginlega stendur upp úr vegna þess að hann er alveg stórglæsilegur.“

Kolbrún segir að margt í bókinni sé sérstaklega vel gert, til að mynda sé vel haldið utan um allar persónur og ljóst að Vilborg hefur kynnt sér þennan tíma vel. „Hættan er sú að þegar höfundur hefur unnið mikla heimildavinnu að textinn verði stirður fyrir vikið…en hún heldur flæðinu alveg.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kiljan - RÚV
Kolbrún Bergþórsdóttir og Sigurður Valgeirsson ræddu um Blóðuga jörð í Kiljunni

Vilborg á sér marga aðdáendur sem fylgt hafa Auði í gegnum þessar bækur en þurfa nú að kveðja hana. Sigurður og Kolbrún eru þó alls ekki viss um að þetta verði síðasta bókin. „Ég er að velta fyrir mér hvernig hún ætlar að komast út úr þessum sagnaheimi. Sem höfundur er hún búin að lifa í þessum sagnaheimi svo lengi,“ segir Kolbrún, og segir að Vilborg geti alveg haldið áfram. „Það er eiginlega ekkert því til fyrirstöðu að hún bæti bara við fleiri bókum um Auði,“ bætir Sigurður við.

„Hún þarf ekki að stoppa þarna, hún getur alveg haldið áfram og ég held að aðdáendur bókanna muni bara kalla eftir því,“ segir Kolbrún. „Við hvetjum hana til þess,“ segir Sigurður að lokum.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Frábær framan af en úrvinnslu ábótavant

Bókmenntir

Vantar herslumuninn upp á að vera verulega góð

Bókmenntir

Spennandi og tilfinningarík Blóðug jörð

Bókmenntir

Farin að trúa eigin skáldskap