Aðdáendur ekki allir meðvitaðir um fíflaganginn

Mynd: RÚV / RÚV

Aðdáendur ekki allir meðvitaðir um fíflaganginn

21.03.2020 - 11:51

Höfundar

Hljómsveitin Spinal Tap eignaðist stóran aðdáendahóp um allan heim þegar heimildarmynd um metalrokksveitina var frumsýnd árið 1984. Hljómsveitin er hinsvegar ekki til og kvikmyndin This Is Spinal Tap er leikin. Eyþór Ingi Gunnlaugsson tónlistarmaður sá myndina fyrst á mótandi árum í lífi sínu og hlær enn yfir kjánaskapnum.

Þegar kvikmyndin This is Spinal Tap kom fyrst út árið 1984 voru flestir áhorfendur grunlausir um að þar væri alls ekki á ferðinni raunveruleg heimildarmynd um misskilda metalbandið Spinal Tap. Hljómsveitin var nefnilega aldrei til og myndin öll leikin, en hún var ein af fyrstu kvikmyndunum sem gerð var í þesskonar „mockumentary“  eða plat-heimildarmynda stíl sem síðan hefur notið mikilla vinsælda í sjónvarpsþátta- og kvikmyndagerð. Eyþór Ingi Gunnlaugsson tónlistarmaður var í framhaldsskóla þegar hann sá myndina fyrst og hafði hún mikil áhrif á hann. „Þetta var á sínum tíma, og jafnvel enn í dag, rosalega gott skot á svona 80's glamrokkara í þröngum buxum með sápuþvegið hár út í loftið,“ segir hann og bætir við að það hafi verið sérstaklega hollt fyrir sig sem ungling að horfa á myndina og læra að hlæja að því sem hann í raun og veru dáði.

Markmiðið með heimildarmynda stílnum segir Eyþór að einhverju leyti hafa verið að plata þyrsta glamrokkara, í von um að sveitin myndi eignast raunverulega aðdáendur. Það gekk eftir samkvæmt Eyþóri og urðu væntanlega margir spældir að átta sig á að þeir hefðu verið gabbaðir og þyrftu nú að fela Spinal Tap stuttermabolina og rífa plakötin niður af veggjum. En gjörningurinn hélt áfram. „Það er líka til tónleikamynd sem heitir Spinal Tap og þar taka þeir þetta enn lengra. Þegar ég kíki á þá mynd er ég ekki viss hvort allir áhorfendur séu meðvitaðir um fíflaganginn,“ segir hann kíminn. 

Sjálfur horfir Eyþór enn reglulega á myndina og alltaf nýtur hann þess jafn mikið. „Hún verður fyndnari eftir því sem maður talar oftar um hana,“ glottir hann. Myndin hefur líka lifað góðu lífi og í raun öðlast einskonar „költ status“ í tónlistarbransanum og mun hún seint gleymast. Ódauðlegir frasar sem tónlistarmenn slá enn um sig með eins og: „magnarinn fer upp í ellefu,“ og þegar giggið er illa heppnað að segja: „þetta var spænall," eru fengnir úr myndinni.

Í vetur sýnir RÚV vel valdar kvikmyndir sem hafa valdið straumhvörfum í kvikmyndasögunni. Að þessu sinni er það gamanmyndin This is Spinal Tap frá árinu 1984 í leikstjórn Robs Reiner sem er á dagskrá klukkan 20:35.

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Sögð í gegnum augu barns en af visku fullorðins manns

Kvikmyndir

„Þarna upphófst ástarsamband mitt við Stallone“

Kvikmyndir

„Maður sekkur inn í þennan heim og trúir honum“