Áhugi ökumanns á fornbílum varð til þess að flytja þurfti annan ökumann með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Suðurnesjum um helgina.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Þar segir að ökumaður hafi komið auga á mikinn fjölda bifhjóla og fornbíla við Fitjabakka og gleymt sér við að horfa á flotann. Hann ók þá aftan á aðra bifreið með þeim afleiðingum að flytja þurfi ökumann hennar með sjúkrabifreið undir læknishendur.
Þá upprætti lögreglan á Suðurnesjum kannabisframleiðslu í íbúð í umdæminu um helgina. Eftir húsleit fannst talsvert magn af kannabisefnum, auk þess sem búið var að setja upp tjald fyrir kannabisræktun í íbúðinni.