Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Að semja tónlist snýst mest um að þora

Mynd: gag / RÚV

Að semja tónlist snýst mest um að þora

17.10.2019 - 16:54

Höfundar

Fyrsta lagið sem tónlistarkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir samdi fjallaði um kaffi. Þá var hún fimmtán ára og fannst kaffi vont á bragðið en töff að drekka það. Í dag er hún einn vinsælasti poppari landsins en hún er í senn söngkona, lagasmiður og frá því nýlega hlaðvarpsstýra.

Í hlaðvarpinu Skaparinn fær tónlistarkonan Hildur í heimsókn til sín annað skapandi fólk og fræðist um sköpunarferli þess, sigra og skakkaföll. Hildur hefur getið sér gott orð bæði hérlendis og erlendis, fyrst starfaði hún sem söngkona og sellóleikari í indíbandinu Rökkurró en í dag er listamannanafn hennar einfaldlega Hildur og hefur hún sent frá sér vinsæla tyggjókúlupoppsmelli á borð við I'll walk with you sem var einn af stærstu smellum sumarsins 2016.

Hildur var nýkomin úr langþráðu ferðalagi til Parísar þegar hún heimsótti Morgunútvarpið og sagði frá tónlistinni sem hún semur fyrir sjálfa sig og aðra og nýju hlaðvarpinu sínu. „Í París fékk ég mikinn innblástur og fullt af góðum mat svo næstu lög verða líklega um mat,“ segir hún kímin.

Samvinna sérstaklega dýrmæt í tónlist

Hildur hefur dundað sér við að semja melódíur síðan hún var sex ára að læra á selló og lék sér að því að frumsemja fallega tóna með boganum. Í dag er hún popptónlistarkona af guðs náð sem starfar á víxl hér- og erlendis, ýmist við sína eigin sköpun og við að aðstoða aðra tónlistarmenn um allan heim í sínu sköpunarferli. Hún segir að ferðalífið henti sér mjög vel því hún er flökkukind og þykir gaman að vera á hreyfingu. „Ég er á leið til Svíþjóðar á mánudag í lagasmíðabúðir þar sem ég hitti fólk frá ýmsum löndum. Markmiðið er að semja frábær lög í samvinnu við aðra.“

Hildur segir að í tónlistarheiminum sé það mjög algengt að fólk semji vinsælustu lögin sem við þekkjum í samvinnu við aðra. „Maður getur nefnilega fengið góða hugmynd einn en þegar fleiri koma að borðinu verða hugmyndirnar auðvitað fleiri. Í tónlist sérstaklega er samvinnan rosalega dýrmæt.“

Það er ómetanlegt að mati Hildar að fá bæði tækifæri til að slá í gegn sjálf en fá líka að vinna á bak við tjöldin við að aðstoða aðra listamenn. „Í mínu ferli er ég að leita að ákveðnum hljóðum en í samstarfi með öðrum er ég oft að semja eitthvað sem ég myndi aldrei gera fyrir sjálfa mig. Það er rosalega krefjandi, gerir mann að betri lagahöfundi og heldur manni ferskum,“ segir hún.

„Ég er ykkar manneskja“

Það þarf ekki að vera snillingur á hljóðfæri til að til eiga erindi á lagasmíðanámskeiðin sem Hildur hefur kennt síðustu misseri. „Fólk segir oft við mig „ég kann ekki á græjur og kann ekki á hljóðfæri.“ Það segir mér allt um það sem þau kunna ekki en stoppar þar. Fyrir mér snýst þetta meira um áhugann og að þora.“

Til að byrja með hélt Hildur námskeiðin eingöngu fyrir konur. Hún segir að sig hafi langað að stuðla að því að rétta af ákveðinn kynjahalla í tónlistarheiminum. „Það var frábært og til mín kom mikið af efnilegum konum sem höfðu gefið út vinsælt efni og vildu nýjar hugmyndir,“ segir Hildur. Í dag hefur hún þó fengið til sín fólk af öllum kynjum og vill endilega fá að kenna enn fleirum. „Sérstaklega langar mig að fá fleiri byrjendur. Ég er ykkar manneskja,“ segir hún sposk. 

Veitir innblástur að búa til hlaðvarp

Hlaðvarpið er hugmynd sem Hildur hafði verið með í maganum lengi því henni þykir upptendrandi fyrir sig sem listamann að eiga í samræðum við annað skapandi fólk. Í þáttinn til hennar koma ýmist listamenn og fólk í nýsköpun sem starfar við eitthvað skapandi. „Ég spyr fólk hvað það gerir þegar þau fá fyrstu hugmyndina eða hvernig það er þegar þau fá til dæmis engar hugmyndir. Mér finnst þetta veita mér rosalegan innblástur að gera þessi hlaðvörp,“ segir hún.

Í fyrsta þættinum talaði Hildur við Dag Hjartarson rithöfund og í nýjasta þættinum ræddi hún við Klöru Arnalds tónlistarkonu og grafískan hönnuð. Ásamt því að taka upp þættina er Hildur að vinna í nýrri plötu sem kemur út á næstu mánuðum.

Viðtalið við Hildi má hlýða á í spilaranum efst í fréttinni en fyrstu tvo þætti Hildar af Skaparanum má hlýða á hér.

 

Tengdar fréttir

Myndband við Bammbaramm