Að rækta garðinn sinn

Mynd með færslu
 Mynd:

Að rækta garðinn sinn

23.09.2013 - 17:36
Stefán Gíslason fjallaði í pistli sínum um ræktun matjurta í borgum en heimaræktun á sér ýmsa kosti og birtist í ýmsum myndum . Sameiginleg garðlönd og þakgarðar koma við hér við sögu.
Borgarlandbúnaður og græn þök
 Ræktun matjurta virðist njóta sívaxandi vinsælda meðal þéttbýlisbúa – og er jafnvel farið að tala um borgarlandbúnað í því sambandi. Margt bendir til að þessi aukni áhugi á ræktun sé ekki bara tískubylgja, heldur beri hann vott um viðleitni fólks til að auka eigin lífsgæði og bregðast við aðsteðjandi vandamálum í nútíð og framtíð, svo sem kreppu, atvinnuleysi og einhæfu framboði á matvælum.
 
 Finna má fjölmörg dæmi þess að fólk hafi brugðist við kreppu eða atvinnuleysi með því, meðal annars, að framleiða sín eigin matvæli í auknum mæli. Þetta getur reyndar hvort sem er átt við um einstakar fjölskyldur, einstök byggðarlög eða heilar þjóðir. Þannig urðu til 32.000 ný störf í landbúnaði í Grikklandi á fyrstu misserum kreppunnar þar í landi, á sama tíma og atvinnuleysi jókst úr 12 prósentum í 18. Í sumum löndum, svo sem í Frakklandi og í Hollandi, hafa stjórnvöld ýtt undir þessa þróun með ýmsum hætti, beinlínis í þeim tilgangi að skapa ný störf og endurvekja og viðhalda verkþekkingu. Í sumum tilvikum hafa verkefni af þessu tagi einnig verið liður í endurhæfingu fólks sem glímt hefur við fötlun eða félagslega einangrun.
 
 Jafnvel á tímum þegar engin neyð virðist steðja að, er lærdómsríkt að rifja upp hvernig fólk hefur komist af á erfiðari tímum. Þessir „erfiðari tímar“ voru ekki endilega á miðöldum, heldur getum við litið okkur mun nær í sögunni. Sem dæmi má nefna að meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð voru 40% af öllu grænmeti Bandaríkjamanna ræktuð í heimagörðum eða sameiginlegum garðlöndum í þéttbýli. Annað dæmi eru viðbrögð almennings á Kúbu við versnandi efnahag í kjölfar hruns Sovétríkjanna. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í bókinni State of the World 2012 hafa íbúar höfuðborgarinnar Havana komið sér upp hvorki meira né minna en 26.000 matjurtagörðum sem ná samtals yfir 2.400 hektara lands og gefa af sér 25.000 tonn af matvælum árlega.
 
 Ef við lítum okkur nær, þá er vaxandi áhugi á ræktun matjurta væntanlega ekki tilkominn út úr neyð, nema í undantekningartilvikum. Líklega er fólk einfaldlega að átta sig á þeim jákvæðu áhrifum sem þessi iðja hefur í för með sér, hvort sem litið er á umhverfislega, efnahagslega eða félagslega þætti. Ef við lítum fyrst á umhverfislegu þættina, þá dregur heimaræktun t.d. úr flutningum og minnkar þannig eldsneytissóun og losun gróðurhúsalofttegunda. Í mörgum tilvikum er ræktunin líka til þess fallin að auka líffræðilega fjölbreytni og bæta vatnsbúskap, auk þess sem hún stuðlar að betri nýtingu þess lands sem þegar hefur verið tekið undir þéttbýli. Í efnahagslegu tilliti er ræktunin til þess fallin að draga úr heimilisútgjöldum og gera heimilið jafnframt minna háð verðsveiflum á matvælamarkaði og tímabundnum skorti á tilteknum fæðutegundum. Ræktun eigin matvæla getur einnig skipt verulegu máli í félagslegu tilliti. Sameiginleg garðlönd skapa til dæmis ýmis tækifæri fyrir þá sem ekki eru í fastri vinnu til að hitta annað fólk og efla samskipti sín út á við. Þetta eru gæðastundir sem bæta lífi við árin.
 
 Sumum kann að finnast það gamaldags að allir séu að vasast í öllu í stað þess að hver og einn einbeiti sér að því sem hann er bestur í. Sérhæfing hefur hins vegar þann galla að hún dregur úr getu fólks til að komast af ef eitthvað ber út af. Það er til dæmis ekki endilega æskilegt að matvælaframleiðsla sé eingöngu í höndum sérhæfðra stórfyrirtækja á því sviði og að neytendur séu hættir að vita hvernig matvæli verða til. Einn af kostunum við það að fólk rækti eigin matvæli er sá, að með því er viðhaldið verkþekkingu og tengslum fólks við náttúruna, en þaðan kemur jú öll okkar fæða hvernig sem á málið er litið.
 
 Ræktun í þéttbýli tekur á sig ýmsar myndir. Ein þessara mynda eru græn þök, sem verða sífellt algengari í borgun. Tilgangurinn með grænum þökum er ekki endilega sá að rækta þar grænmeti, heldur gegna þau ýmsum öðrum hlutverkum. Fyrr í þessum pistli minntist ég til dæmis á aukna líffræðilega fjölbreytni, betri vatnsbúskap og bætta nýtingu lands í þéttbýli. Græn þök í borgum stuðla að þessu öllu, hvort sem þar eru ræktaðar matjurtir eða eitthvað annað.
 
 Rigningarvatn sem lendir á steyptum eða malbikuðum flötum og rennur þaðan beint í næsta niðurfall er yfirleitt engum til gagns. Vatn sem lendir á grónu yfirborði nærir hins vegar gróðurinn og smádýralífið í jarðveginum, auk þess sem hæfilegur hluti þess gufar upp eða sígur niður í grunnvatnið. Gróin svæði í borgum, hvort sem þau eru á jörðu niðri eða á þökum, eiga því stóran þátt í að viðhalda eðlilegri hringrás vatns. Þessi svæði geta bundið allt að 75% af því vatni sem á þau fellur, auk þess sem gróðurinn og jarðvegurinn binda gróðurhúsalofttegundir og mengunarefni frá borgarumferðinni. Uppgufun frá þessum svæðum er líka til þess fallin að tempra hitastig í borgum, þar sem annars er hætta á að til verði svokallaðar hitaeyjar vegna þess hversu mjög yfirborð bygginga og umferðarmannvirkja hitnar á góðum sólardögum. Talið er að í sumum borgum myndi hitastig lækka um heilar 4 gráður ef öll þök væri orðin græn. Áhrifin á innihitastig geta líka verið veruleg, þar sem grænu þökin einangra mun betur en flest önnur þök.
 
Græn þök eru auðvitað ekkert nýnæmi fyrir Íslendinga sem bjuggu undir grænum torfþökum um aldir. En græn þök nútímans eru af öðrum toga. Nú snýst málið ekki um skort á byggingarefnum, heldur um þann fjölþætta ávinning sem hægt er að hafa af slíkum þökum. Græn þök nútímans eiga öðru fremur rætur að rekja til Þýskalands, þar sem þessi nýja útfærsla tók að ryðja sér til rúms á 7. áratug síðustu aldar. Í nokkrum löndum Evrópu hafa stjórnvöld stuðlað að þessari þróun, m.a. með beinum styrkjum. Grænu þökin eru þá liður í stefnu viðkomandi borga eða svæða og er m.a. ætlað að draga úr álagi á fráveitukerfi og minnka hættu á flóðum.
 
 Meginniðurstaðan úr þessu spjalli er sú að græn þök, hvort sem þar eru ræktaðar matjurtir eða eitthvað annað, eigi verulegan þátt í að gera viðkomandi þéttbýlissvæði byggilegri. Og ræktun í þéttbýli, hvort sem hún á sér stað á þökum eða á jörðu niðri, er ekki bara tískubylgja, heldur liður í því að auka lífsgæði og sjá íbúum heimsþorpsins fyrir nægri næringu. Reyndar má færa fyrir því sterk rök að heimaræktun af þessu tagi sé mannkyninu algjörlega nauðsynleg til lengri tíma litið.