Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Að meðaltali 5 á viku fluttir burt af lögreglu

29.06.2016 - 19:34
Mynd með færslu
 Mynd: Ekki fleiri brottvísanir
Aldrei hefur jafn mörgum verið vísað úr landi í lögreglufylgd og á þessu ári. Lögregla hefur að meðaltali fylgt fimm hælisleitendum á viku að beiðni Útlendingastofnunar.

Myndband af brottflutningi tveggja írakskra hælisleitenda úr Laugarneskirkju í fyrrinótt hefur vakið mikla athygli. Þar sést lögregla færa mennina út úr kirkjunni með valdi og lögreglumaður slá til eins stuðningsmanns hælisleitendanna. Að sögn ríkislögreglustjóra er verið að taka saman skýrslur af lögreglumönnunum sem áttu þátt í aðgerðunum. Innanríkisráðuneytið neitaði að tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. 
Í svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að mikil aukning hefur orðið á beiðnum Útlendingastofnunar til lögreglu um fylgd hælisleitenda úr landi. Árið 2015 var 123 hælisleitendum vísað úr landi í lögreglufylgd, en það sem af er ári hefur 131 verið vísað burt með aðkomu lögreglu. 

Aldurinn ekki sannreyndur

Þeir Ali og Majed voru sendir til Noregs og á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Á vef Stundarinnar segir að Ali hafi sjálfur haldið því fram að hann sé sextán ára, en hafi ferðast á fölsku vegabréfi, þar sem hann er sagður vera 19 ára. Hann hafi óttast að verða dæmdur í fangelsi fyrir skjalafals og því ekki viðurkennt í viðtölum við Útlendingastofnun að vegabréfið væri falsað. Útlendingastofnun sendi fréttatilkynningu á fjölmiðla í gærdag um að pilturinn væri yfir lögaldri, og vísaði í gögn málsins og viðtöl hans hjá stofnuninni. Í svari stofnunarinnar við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að ekki hafi þótt ástæða til að efast um aldur hans og ekki hafi verið farið fram á leiðréttingu á uppgefnum upplýsingum um aldur eða fæðingardag. Því hafi ekki verið óskað frekari gagna eða gerðar rannsóknir til að sannreyna aldurinn.