Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Að dvelja í náttúrunni; að berjast gegn henni

Mynd: Þorvarður Árnason / Þorvarður Árnason

Að dvelja í náttúrunni; að berjast gegn henni

23.01.2018 - 12:19

Höfundar

Samband manns og náttúru í tveimur af öndvegisverkum íslenskra bókmennta á tuttugustu öld var umræðuefni fyrirlesturs Jóns Yngva Jóhannssonar bókmenntafræðings. Þetta eru Aðventa Gunnars Gunnarssonar og Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxnes og mennirnir auðvitað þeir Bjartur í Sumarhúsum og Fjalla-Bensi

Aðalpersónur þessara bóka, fjallagarpurinn Benedikt og kotbóndinn Bjartur, bjóða upp á margvíslegan samanburð. Báðir spretta úr gamla íslenska sveitasamfélaginu sem var viðfangsefni flestra íslenskra skáldsagna fram eftir tuttugustu öldinni. Fyrst og fremst eru þeir þó fulltrúar ritunartíma nefndra verka og segja okkur lesendum margt um viðhorf þess samtíma til margvíslegra hluta, þar á meðal umhverfis og náttúru, ekki síst öræfanna og víðernanna, sem og til þeirra breytinga sem nú eiga sér stað í viðhorfum Íslendinga til þessarar öfgafullu náttúru lands síns.

Heiðarbýlið eftir Jón Trausta var byrjunin
Jón Yngvi byrjar þó á að fjalla um eldra skáldverk, Heiðarbýlið eftir JónTrausta, sem kom út á árunum 1908-1911. Einkum skoðar Jón Yngvi inngang verksins þar sem m.a. er fjallað um það hvernig Ísland birtist þeim sem kemur siglandi af hafi og þar sem ferðalangurinn fer á mis við margt sem landið prýðir eins og heiðalöndin þar sem er víða gróðursælt, en „allt er fellt í umgjarðir blikandi jökla og blárra tinda, gróinna hraunstrauma og grárra eyðisanda. Þessi hluti Íslands er heimur út af fyrir sig með sumaryndi og vetrarríki. Hann er mikill að fegurð, mikill að svip og mikill að víðáttu.“ Eitt sinni þekktu menn þennan heim en nú eftir að menn hættu að ferðast um hálendið er hann orðinn ókunnur, segir Jón Trausti meðal annars og kallar eftir samgöngum um landið en ekki bara utan um það.

Sögumaður Heiðarbýlisins talar um landið út frá þrennum tímum, Ísland fortíðarinnar skynjað af ríðandi og gangandi fólki, Ísland samtíðar hans sem ferðast í kringum landið á strandferðarskipum og loks Ísland framtíðarinnar, „þar sem rennireiðir þjóta yfir heiðarnar.“  Með öðrum orðum það er „maðurinn, skynjun hans og sjónarhorn, sem móti landslagið.“

Nýtt landnám
Fyrstu smásögur Gunnars Gunnarssonar fjalla margar um ferðir inn á hálendi Íslands, ævinlega vegna brýnna erinda. Þessar söguhetjur snúa fæstar aftur, „afl náttúrunnar verður þeim einfaldlega um megn.“ Náttúran, hálendið og öræfin, er með öðrum orðum ógnandi jafnvel lífshættuleg. Upp úr 1930 tekur þessi afstaða að breytast, áhugi á víðernum eykst og þörfin fyrir að kynnast þeim og kortleggja.

Þetta „nýja landnám“ mun mega tímasetja við árið 1927 þegar útgáfa rita eins og Hrakningar á heiðarvegum hefst, Ferðafélag Íslands er stofnað sama ár og útgáfa tekur að eflast á eldri ferðabókum útlendinga í þýðingum. Í þessum ritum er hálendinu iðulega lýst sem „handan við mannlega byggð, það er framandi, ókunnugt og ónumið. En það er hægt að sigrast á því“ og til þess þarf karlmennsku.

Þessu nýja landnámi sér ekki aðeins stað í ferðabókum heldur einnig í skáldsögum, ekki síst skáldsögum Gunnars Gunnarsson. Jón Yngvi benti á Vikivaka og vitnaði í Fjallkirkjuna um leið og hann undirstrikaði hversu ólík nálgun Gunnars er í þessum verkum samanborið við smásögur hans fyrr sem og í Aðventu.

Mynd með færslu
 Mynd: Unknovn - Unknown

Náttúran hefur „vilja og veru“
„Náttúru- og veðurfarslýsingar eru stór hluti sögunnar,“ segir Jón Yngvi, „og sennilega sá hluti sögunnar sem hefur haft mest áhrif á aðra höfunda. Jón Yngvi bendir á þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar sem hefst á bókinni Himnaríki og helvíti sem dæmi. Náttúran í Aðventu hefur í gegnum tíðina verið túlkuð með ýmsum hætti. Í augum Jóns Yngva er náttúrunni í Aðventu fyrst og fremst lýst sem lifandi, að hún „hafi vilja og veru“ sem megi tengja norrænum bókmenntum frá þriðja áratug tuttugustu aldar og þar með Vitalisma eða lífsstefnu, sem Kristján Jóhann Jónsson bókmenntafræðingur hafði fjallað um í sínum fyrirlestri á ráðstefnunni.

Aðventa brúar bil milli fortíðar og nútíðar varðandi skynjun okkar á hálendinu. Tilgangurinn ferðar Benedikts er á yfirborðinu hagnýtur, að leita kinda, en þegar grannt er að gáð er tilgangur þessarar ferðar ekki síður trúarlegur sem og persónulegur eða tilvistarlegur, að mati Jóns Yngva. „Hálendið og það að dvelja á hálendinu, að lifa þar til fulls, hefur gildi í sjálfu sér  [...] slík dvöl er virk, hún felur í sér byggingu, mótun þess umhverfis sem maðurinn dvelur í hverju sinni, en um leið felst hún í varðveislu, ræktun. Sá sem dvelur raunverulega í umhverfi sínu gætir þess, hirðir um það.“

„Heima“ og „úti“
Þá er í sögunni Aðventu hefðbundnum skilningi á hugtökum eins og „heima“ og „úti“ snúið á haus. „Öræfin eru hið sanna heimili Benedikts. Meðal manna er hann hálfgildur,“ það er „hálfgildings hjú, hálfgildings húsmaður,“ eins og segir í sögunni. Þar með er andstæðunni byggðir og óbyggðir einnig snúið á haus. „Óbyggðirnar eru heimkynni Benedikts,“ [...] með dvöl sinni mótar hann þetta land sem heimili sitt,“ gefur því merkingu. Í Aðventu má kenna býsna nútímaleg sýn, að mat Jóns Yngva, nefnilega þá „að heimkynni mannsins þarf ekki að vera í grænu rjóðri það getur líka verið í hinu harðneskjulega og háleita landslagi vetrarins.“

Írónían aðalsmerki Sjálfstæðs fólks
Bjartur í Sumarhúsum er ólíkt Benedikt í Aðventu rótfastur á sinni jörð en með því að halda því fram að „Bjartur lifi í fullu samræmi við náttúruna“ er litið framhjá íróníunni sem er innbyggð í frásögnina og kemur fram í sköpun fjarlægðar milli þess sem segir söguna og persónanna sem sagt er frá. Mest áberandi er þessi fjarðlægð á milli sögumanns og persónu Bjarts. Þegar Bjartur er kominn inn á öræfin dregur hins vegar úr þessari fjarlægð. Þar horfa þeir höfundurinn og Bjartur „sömu augum á veruleikann, á bökkum Jökulsár rennur skynjun þeirra fullkomlega saman.“

Heiðin er Bjarti athvarf og heimili líkt og Benedikt og reynsla hans af því að dvelja á heiðinni einkennist ekki bara af baráttu heldur býr líka yfir samhljómi. Allt þar til hreindýrin vekja upp í honum gróðavonina, sem annars einkennir afstöðu hans í lífinu, og sem á heiðinni leiðir hann í miklar hrakningar, jafnvel lífshættu.

Bókmenntalegt samhengi og sögulegt samhengi
Sögurnar af Bjarti og Benedikt eru sögur um gamla sveitasamfélagið líkt og svo mörg íslensk bókmenntaverk á nítjándu og tuttugustu öld. Um leið eiga þessi verk sér stærra samhengi. Ferðlög þeirra Bensa og Bjarts minna á ferðlanga eins og „Glan höfuðsmann í Pan eftir Knut Hamsun sem og landnámsmenn eins og Ísak í Gróðri jarðar eftir sama höfund. Ísak, Bensi og Bjartur eiga ýmislegt sameiginlegt, að mati Jóns Yngva, meðal annars það „að þeir hafa löngum verið taldir tilheyra liðnum tíma og að til þeirra sé ekkert að sækja um samtímann, hvað þá um framtíðina.“ Jón Yngvi tekur hins vegar undir með norskum fræðimönnum sem „nú eru í óðaönn að endurskoða Gróður jarðar, sem geti sagt okkur eitthvað um umhverfismál og um aðrar tegundir módernisma [...] og ef hægt er að endurskoða Ísak og Gróður jarðar á þennan hátt þá ættum við kannski að líta til Bjarts og Bensa,“ segir Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur að lokum.