Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Ábyrgðin er hjá borginni“

Mynd: RÚV / Jón Þór Víglundsson
Pétur H. Ármannsson sviðsstjóri hjá Minjastofnun gagnrýnir að heimilað hafi verið að reisa byggingarnar við Laugaveg 4 og 6. Hann segir að ekki hafi verið tekið tillit til þess hvað umhverfið þoli.

Ný bygging sem er nú að rísa á bak við húsin að Laugavegi fjögur og sex hefur vakið nokkuð umtal og deilur. Byggingin á sér nokkuð langan aðdraganda en borgin keypti húsin og byggingarréttinn af þeim í janúar 2008 í þeim tilgangi að varðveita húsin.

Pétur H. Ármannsson arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun segir að verndunin hafi verið vel heppnuð af hálfu borgarinnar. Erfitt sé hins vegar að skilja þá ákvörðun að bæta annarri byggingu við. „Einhvern veginn virðist ákvörðunin um byggingamagnið á lóðinni hafa verið tekin án þess að hugsa hvað umhverfið þolir. Og því miður erum við að sjá fleiri og fleiri dæmi um þetta.“

Pétri finnst þessi aukabygging koma illa út. Meira sé byggt en reiturinn beri. Sökin sé þó ekki hjá arkitektunum. „Það verður að segjast eins og er að ég held að ábyrgðin á þessu máli liggi alfarið hjá Reykjavíkurborg. Verktakinn eða þróunaraðilinn sem kaupir þennan byggingarrétt og þetta skipulag sem borgin var búin að ákveða hvernig ætti að vera, þessi bygging er nákvæmlega eins og skipulagið mælti fyrir um.“

Pétur gagnrýnir að fagurfræðin láti oft undan í framkvæmdum, sérstaklega nú þegar verið er að þétta byggð. „Það er eins og menn byrji alltaf á Excel-skjalinu, ákveði hvað sé hægt að koma fyrir mörgum fermetrum og græða mikinn pening á tiltekinni lóð. Svo handsala menn eitthvað samkomulag og eftir það fara menn að vinna skipulagið, sem ætti að vera komið á undan. Menn eiga alltaf á hverjum stað að velta fyrir sér hvað þolir þetta umhverfi, hvernig geta menn þróað þennan stað á jákvæðan hátt.“