Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ábyrg ríkisstjórn semji ekki án vilja

12.02.2014 - 15:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin sé einhuga um að hag Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Ábyrg ríkisstjórn fari ekki í þá vegferð að leita samninga til þess eins að hefja síðan baráttu gegn þeim.

Þetta kom fram í ræðu forsætisráðherra á Viðskiptaþingi. Ísland haldi áfram að eiga gott samstarf við nágranna sína í Evrópu og efla víðtækt samstarf við Evrópuþjóðir. Áfram verði haldið við að auka viðskipti við lönd um allan heimn og hefja sókn á nýja markaði, meðal annars á grundvelli fríverslunarsamninga.

Forsætisráðherra sagðist mjög bjartsýnn á framtíð Íslands og lagði áherslu á að ríkisstjórnin vilji vera í góðu samstarfi við atvinnulífið til að koma hagkerfinu aftur á gott skriði. Í niðursveiflu eigi ríkisvaldið að hvetja en ekki letja og það skili ekki árangri að skattleggja sig út úr samdrætti og kreppu. 

Forsætisráðherra ræddi um reglulegt átak Samtaka verslunar og þjónustu til að hvetja fólk til að versla í íslenskum búðum en ekki erlendum. Síðast undir átakinu „Það borgar sig að versla á Íslandi.“ Hann sagði það hinsvegar skjóta skökku við þegar sömu samtök ráðist reglulega í herferð gegn innlendum framleiðendum, einkum matvælaframleiðendum, fyrir að vinna að því sama; eflingu innlendrar framleiðslu. Þá sé hætt við að það líti út eins og tvískinnungsháttur ef samtök leggist gegn því að fólk geti pantað póstsendingar frá útlöndum fyrir allt að 2.000 krónur án þess að greiða aðflutningsgjöld en berjast á sama tíma gegn því með öllum tiltækum ráðum að íslenskir bændur njóti heimamarkaðsverndar, sem sé sú sama og í viðskiptalöndum landsins. 

Gjaldeyrishöftin verði ekki afnumin nema skilyrði séu til þess. Þar skipti uppgjör á slitabúum gömlu bankanna höfuðmáli. Á fimm árum hafi ekki tekist að klára nauðasamninga þannig að það réttlæti afléttingu hafta. Afnám hafta megi ekki stofna í hættu efnahagslegum stöðugleika. Þá þurfi ekki að koma á óvart að lífeyrissjóðir séu fyrirferðarmikllir á hlutabréfamarkaði á meðan þeir búi við gjaldeyrishöft. Forsætisráðherra segist hinsvegar hafa efasemdir um ágæti þess þegar hópur lífeyrissjóða stofni sérstakt fyrirtæki til að taka stórar stöður í öðrum fyrirtækjum. 

Sóknarfæri Íslendinga séu mýmörg. Ætli íslenska þjóðin sér að nýta tækifærin sín verði hún að vinna saman að því að verða samkeppnisfær, sagði forsætisráðherra og vitnaði í orð Mikhaíls Gorbatsjev um að „lífið refsi þeim sem komi of seint". 

Staða ríkissjóðs, kjör launþega, heilbrigðisþjónusta eða önnur lífsins gæði batni ekki nema atvinnulífið fái tækifæri til að skapa aukin verðmæti og búi við aðstæður sem stuðli að slíkri verðmætasköpun.