Absolut eimar spíra fyrir sænska heilbrigðiskerfið

19.03.2020 - 06:42
Mynd með færslu
Ófáir Svíar myndu eflaust fagna því að geta keypt handspritt og sótthreinsigel í svona umbúðum, en þeim verður þó ekki að þeirri ósk, því Absolut mun einungis framleiða spírann sem nota skal í sótthreinsiefnin Mynd: SVT
Stærsti vodkaframleiðandi Svíþjóðar, Absolut-brugghúsið á Skáni, leggst á árarnar með sænskum heilbrigðisyfirvöldum og eimar nú spíra í stórum stíl. Hann er þó hvorki ætlaður til drykkju eða vodkaframleiðslu, heldur til handþvotta og sótthreinsunar á heilbrigðisstofnunum.

Mikill og bagalegur skortur er á sótthreinsispritti í Svíþjóð eins og víðar á þessum síðustu og verstu farsóttartímum. Það er sama hvar borið er niður í sænskum stórmörkuðum, apótekum og netverslunum, hvergi er dropa af sótthreinsispritti eða -geli að fá. Þetta veldur miklum vanda, og allra mestum í heilbrigðiskerfinu, segir í frétt SVT.

Stjórnendur Absolut-verksmiðjunnar höfðu því samband við sænsk stjórnvöld og buðust til að eima spíra í massavís. Þegar hefur einn 200.000 lítra tankur verið fylltur af því sem næst hreinum vínanda, og von er á meiru. Absolut hyggst ekki framleiða lokaafurðirnar, sjálft handsprittið og sótthreinsigelið, heldur einungis grunnhráefnið, spírann. Og sá verður ekki seldur hæstbjóðanda, heldur fá stjórnvöld að ráða ferðinni við val á framleiðendum.

Megináherslan verður lögð á að sjá sænskum sjúkrahúsum, heilsugæslum og öðrum heilbrigðisstofnunum fyrir þessum lífsnauðsynlega varningi, sem þó verður ekki seldur undir merki Absolut. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi