Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ábending réttlætti ekki handtöku

25.03.2016 - 12:54
Héraðsdómur Reykjavíkur
 Mynd: RÚV
Ábending um að maður neyti gjarnan fíkniefna gefur lögreglu ekki heimild til að færa viðkomandi á lögreglustöð, að mati Héraðsdóms Reykjavíkur. Ríkið hefur verið dæmt til að greiða manni miskabætur eftir að hann var að ósekju stöðvaður á merktum vinnubíl um hábjartan dag og látinn gefa þvagsýni á lögreglustöð.

 

 

Í desember 2013 fékk lögreglumaður á Egilsstöðum ábendingu um að maður í bænum neytti reglulega kannabisefna. Ákvað lögreglumaðurinn að taka á málinu og nokkrum dögum síðar stöðvaði hann för mannsins á Egilsstaðanesi milli Egilsstaða og Fellabæjar. Hann vildi ganga úr skugga um hvort maðurinn æki undir áhrifum fíkniefna. Fram kemur í dóminum að þetta hafi verið í hádeginu og að maðurinn hafi verið á merktum vinnubíl. Maðurinn fór yfir í lögreglubifreiðina þar sem honum var tilkynnt tilefni þess að hann væri stöðvaður. Að því búnu var ekið með manninn á lögreglustöð og hann látinn gefa þvagsýni. Ekkert fannst í þvaginu og var manninum þá sleppt. Fram kemur í dómnum að aðgerðir hafi staðið yfir í um 30 mínútur. 

Stefndi ríkinu

Maðurinn stefndi ríkinu og krafðist einnar milljónar króna í miskabætur. Fyrir dómi sagði lögreglumaðurinn að hann hefði ekki skert frelsi mannsins enda hafi hann verið samvinnufús. Hins vegar kom fram að manninum var meinað að fara upp í bíl sinn og aka honum á lögreglustöðina. Þá bar lögreglumaðurinn fyrir dómi að hann hefði beitt manninn þvingunum hefði hann streist á móti. 

Dómurinn taldi að lögregla hefði beitt þvingunum á mjög hæpnum grundvelli og í raun handtekið manninn. Ábending um mögulega fíkniefnaneyslu geti ein og sér ekki talist rökstuddur grunur um akstur undir áhrifum og verið tilefni slíkra aðgerða. Voru manninum dæmdar 200 þúsund krónur í miskabætur.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV