Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Áætlun um brottflutning Sigurfara

10.04.2012 - 17:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Fúinn hefur náð tökum á Kútteri Sigurfara og skipið nálgast það að hrynja á Safnasvæðinu á Akranesi. Forstöðumanni Byggðasafnsins hefur verið falið að semja áætlun um brottflutning skipsins ef ekki fæst fjármagn til að koma því í skjól.

Eins og greint hefur verið frá liggur Kútter Sigurfari, síðasta þilskip skútualdar sem Íslendingar eiga, undir skemmdum á Safnasvæðinu á Akranesi. Bæjaryfirvöld vilja koma skipinu í skjól, svo hægt sé að bjarga því, og hafa óskað eftir viðræðum við menntamálaráðherra um aðkomu ríkisins.

Skagamenn segja lítinn tíma til stefnu. Skipið sé að hruni komið. Þess vegna er nauðsynlegt að grípa til aðgerða, segir Sveinn Kristinsson, formaður Akranesstofu. „Skipið er náttúrulega hin eina sanna þjóðarskúta Íslendinga og er kannski illa farin eins og hún líka. Fúinn er að fara með skipið og það fer bráðum að hrynja niður á safnasvæðinu. Verði ekkert gert bráðlega í að koma skipinu undir þak blasir hitt við að það verður að fjarlægja það.“

Þetta er einmitt það sem Akranesstofa ályktaði um á síðasta fundi sínum. Þar var forstöðumanni Byggðasafnsins falið að gera áætlun um hvernig megi standa að því að fjarlægja Kútter Sigurfara þaðan sem hann hefur staðið við hlið Byggðasafnsins síðustu áratugina. Sveinn segir að ef ekki reynist unnt að bjarga Sigurfara sé aðeins eitt í stöðunni. „Þá verðum við að gera það næst besta, að taka þá hluti úr skipinu sem nýtanlegir eru sem sýningargripir og geyma þá en fjarlægja afganginn af því.“