Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Á vindurinn heima í rammaáætlun?

06.02.2018 - 17:00
Mynd: Landsvirkjun / Landsvirkjun
Lögfræðingur hjá Orkustofnun segir að ef vindorka verði látin heyra undir rammaáætlun verði vindmyllugarðar ekki að veruleika næstu 6 til 8 ár. Ágreiningur er milli umhverfisráðuneytis og Orkustofnunar um hvort vindorka falli undir lög um rammaáætlun.

Áhuginn að nýta vindorku til raforkuframleiðslu hefur aukist umtalsvert síðustu misseri. Nokkuð margir hafa hug á því að reisa vindmyllugarða eða -ver sem geta framleitt talsvert af orku. Það sem virðist hjálpa til er að kostnaðurinn við að koma upp vindmyllum hefur lækkað og  kostnaðurinn að baki hverju megavatti er orðinn nær sambærilegur og kostnaðurinn við að nýta vatnsorku. 

Mörg verkefni í pípunum

Sveitarfélög eru sum hver byrjuð að gera ráð fyrir svæðum undir vindmyllur eða byrjuð að huga að því. Nefna má Snæfellsbæ og Rangárþing ytra í því sambandi. Fyrirtækið Storm Orka hefur hug á því að reisa 130 megavatta vindmyllugarð í Dölunum og sömuleiðis er fjárfestingarfélagið Gamma með augastað á jörð undir vindmyllur í Dölunum. Þá eru áform um að koma upp vindmyllum á Mosfellsheiði, í Landeyjum og fleiri stöðum. Gallinn er bara sá að regluverkið á Íslandi hefur ekki gert ráð fyrir vindmyllum. Vinnuhópur er að störfum á vegum umhverfisráðuneytis sem hefur það verkefni að athuga hvernig og hvort breyta þurfi lögum til að þau nái til vindorkunnar. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili niðurstöðum innan skamms.  

Gætu liðið sex til átta ár

Hins vegar er ágreiningur milli umhverfisráðuneytis og atvinnuvegaráðuneytis annars vegar og Orkustofnunar hins vegar um hvort vindmyllugarðar sem framleiða yfir 10 megavött eigi að heyra undir rammaáætlun. Ráðuneytin standa fast við að lög um rammaáætlun geri í raun ráð fyrir því þó að það sé ekki beint orðað. Orkustofnun er á öðru máli. Skúli Thoroddsen, lögfræðingur hjá Orkustofnun bendir á að virkjakostir sem eru yfir 10 megavött þurfi að fara fyrir verkefnastjórn rammaáætlunar sem rannsakar ýmsa þætti s.s. umhverfisáhrif, efnahagslegar forsendur, þjóðhagslega hagkvæmni og ýmis önnur atriði. Samkvæmt lögum á að endurskoða rammaáætlun á fjögurra ára frestir en reyndin hefur verið að það hefur tekið talsvert lengir tíma, segir Skúli.

„Ef  það yrði niðurstaðan, að allir virkjanakostir umfram 10 megavött í vindi þyrftu að fara í rammaáætlun, þá er tómt mál að tala um virkjanakosti í vindi næstu sex til átta ár,“ segir Skúli.

Sveitarfélög með skipulagsvaldið

En rök Orkustofnunar eru ekki bara þau að það muni taka mun lengri tíma að koma upp vindmyllum ef þær heyrðu undir rammaáætlun. Skúli bendir á að það sé Orkustofnun sem á endanum veiti öll virkjanaleyfi. Orkustofnun leggur fram virkjakosti sem verkefnisstjórn rammaáætlunar skoðar og flokkar í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. En að lokum er það Orkustofnun sem veitir sjálft virkjunarleyfið. Skúli bendir á að raforkuframleiðsla sé vöruframleiðsla á samkeppnismarkaði og öllum sé frjálst að stunda þá vinnu sem þeir kjósa. Það sé bundið í stjórnarskrá.

„Sveitarfélögin hafa samkvæmt stjórnarskránni skipulagsvald á því hvaða starfsemi er í sveitarfélaginu. Það er atvinnufrelsi á Íslandi og eignarrétturinn er friðhelgur. Þannig að þú gætir nýtt þitt land eins og þér best hentar til þeirrar atvinnustarfsemi sem þú vilt á þínu landi. Öll þessi stjórnarskrárákvæði eru svo sterk að löggjöf sem fer gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar þurfa að vera mjög skýr og mjög ótvíræð. Það að vindorka falli undir skilgreiningu um nýtingu landsvæða til orkunýtingar eða verndar er bara loðin og hugmynd sem kom upp í þingnefnd í meðförum þingsins á lögunum. Orkustofnun hefur talið að lögin standist ekki þessi stjórnarskrárákvæði,“ segir Skúli.

Á ekki við um vind

En hvað er athugavert við það að vindorkan verði látin heyra undir rammaáætlun, sem hefur fram til þessa nær einungis fjallað um vatnsorku og jarðhita? Í þriðja áfanga rammaáætlunar er reyndar fjallað um bæði Búrfellslund og Blöndulund sem eru vindmyllugarðar sem Landsvirkjun er með á prjónunum. Blöndulundur fór í nýtingarflokk en Búrfellslundur í biðflokk. 

„Fyrir það fyrsta er rammaáætlun hugsuð þannig, að þú sért að vernda landsvæði þar sem eru mikilvægar náttúruauðlindir, eins og til dæmis fossar. Gullfoss er til dæmis friðaður. Það ber að friða landsvæði sem eru ekki í nýtingarflokki. Vindorku getur þú bókstaflega haft hvar sem er vegna þess að vindurinn er alls staðar. Það er bara spurning hvar vindurinn blæs á sem hagkvæmastan hátt. Þannig að reglurnar eða hugmyndin að rammaáætlun um jarðhitasvæði, fossa og flúðir til verndunar eða friðunar á alls ekki við um vind,“ segir Skúli.
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV