Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Á móti breytingum á Fríkirkjuvegi

31.01.2012 - 22:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Húsafriðunarnefnd leggst gegn miklum breytingum á Fríkirkjuvegi 11 og óskar þess að friðun innra byrðis hússins verði undirbúin. Á síðasta fundi nefndarinnar, 24. janúar, var lögð fram beiðni um breytingar og endurbætur.

 Í bókun Húsafriðunarnefndar segir að mikilvægt sé að varðveisluverðum húsum sé fundið nýtt hlutverk þegar því fyrra er hætt. Fríkirkjuvegur 11 hafi hýst mjög fjölbreytta starfsemi, án þes að innviðum þess hafi verið mikið breytt.  Það sé að miklu leyti í upprunalegri mynd eins og það var þegar Thor Jensen lét reisa það snemma á síðustu öld, bæði að innan og utan. Í öllum endurbótum hafi virðing verið borin fyrir stórhug og glæsilegu handverki sem húsið beri vitni um. Breytingarnar sem nú eigi að ráðast í telur nefndin rýra gildi hússins meira en hægt sé að sættast á. Þar er gert ráð fyrir miklum breytingum á innra byrði hússins, færslu á aðalstiga og veggjum, niðurtöku stiga og gerð nýrra, niðurbroti veggja og fjölgun og stækkun hurðaropa. Afgreiðslu erindisins var frestað.  Björgólfur Thor Björgólfsson keypti húsið af borginni í gegnum dótturfélag sitt 2008. Ytra byrði þess var friðað 1978.