Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Á fjórða tug bíla festust á Reynisfjalli

25.12.2016 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Orri Örvarsson
Björgunarsveitarmenn í Vík í Mýrdal aðstoðuðu ökumenn þrjátíu til fjörtíu bíla sem festust í ófærð á Reynisfjalli í morgun. Mikill meirihluti voru illa búnir erlendir ferðamenn. Spáð er hríðarveðri á nær öllu landinu í dag.

Það hefur verið leiðindaveður víða á landinu í morgun, snjókoma og frekar hvasst. Hvassviðrið hefur verið einna mest á sunnan- og suðvestanverðu landinu og það sló í storm við Mýrdalsjökul. Björgunarsveitarmenn í Vík í Mýrdal tóku jóladaginn snemma. Orri Örvarsson er formaður björgunarsveitarinnar Víkverja. „Við byrjuðum upp úr átta í morgun, þá vorum við kallaðir út. Þá var okkur sagt að það væru sex bílar fastir en það nú fljótt að fjölga í hópnum. Við erum búnir að aðstoða á milli þrjátíu og fjörtíu bíla á Reynisfjalli í morgun,“ segir Orri.  

„Þetta verður strembinn dagur“

Orri segir að stór kafli fjallsins sé þungfær en veðrið hafi verið ágætt, í það minnsta ekki blint. Hann segir að flestir ökumanna séu illa búnir ferðamenn. „Þetta er 95 prósent ferðamenn. Þetta er mikið af Asíufólki á ferðinni núna. Og hvernig eru menn búnir? Bara í lakkskónum sínum og svoleiðis, fólk er greinilega ekki að fara í einhvern vetur. Þetta verður strembinn dagur ef spáin rætist. Það gæti farið að hvessa þegar líður á og þá verður fjallið bara algjörlega ófært.“ Á vef Vegagerðarinnar segir að búast megi við vindhviðum að 40 metrum á sekúndu undir Vatnajökli í dag. Þá er útlit fyrir snjókomu og éljagang á nær öllu landinu og björgunarsveitir í viðbragðsstöðu. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV