Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Á fimmta þúsund lést af völdum Maríu

30.05.2018 - 01:58
Jonathan Aponte walks with a gas can up the road to his home in the aftermath of Hurricane Maria, in Yabucoa, Puerto Rico, Tuesday, Sept. 26, 2017. Governor Ricardo Rossello and Resident Commissioner Jennifer Gonzalez, the island’s representative in
María olli miklum skemmdum í Púertó Ríkó. Mynd: AP
Samkvæmt útreikningum vísindamanna við Harvard háskóla í Bandaríkjunum létu yfir 4.600 manns lífið í Púertó Ríkó vegna fellibylsins Maríu í september í fyrra. Það eru sjötíu-falt fleiri en opinberar tölur gefa til kynna.

Þriðjung dauðsfallanna má rekja til vandræða við heilbrigðisþjónustu vegna rafmagnsleysis og rofinna vega, að sögn vísindamannanna. BBC hefur eftir stjórnvöldum í Púertó Ríkó að þau hafi alltaf grunað að fjöldi látinna væri meiri en þeir 64 sem opinberar tölur segja.

Sérfræðingar segja það hafa reynst flókið að komast að því hversu margir létust af völdum fellibylsins. Haft var samband við yfir þrjú þúsund heimili af handahófi á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Þar var spurt út í flutninga, eyðileggingu mannvirkja og dánarorsakir. Niðurstöðurnar notuðu þeir til samanburðar við dánartíðni á Púertó Ríkó á svipuðum tíma 2016. Þar kom í ljós að dánartíðni fyrstu þrjá mánuðina eftir fellibylinn var 60% hærri en á sama tíma árið áður.

Skert heilbrigðisþjónusta af völdum óveðursins var helsta orsök aukinnar dánartíðni mánuðina eftir fellibylinn. Skerðing á heilbrigðisþjónustu vegna rafmagnsleysis verður sífelld stærri þáttur varðandi fjölda látinna af völdum náttúruhamfara, að sögn rannsakenda. Sjúklingum sem glíma við langvarandi sjúkdóma og treysta á rafmagnstæki til að halda sér lifandi fari fjölgandi.
Fellibylurinn María olli mesta rafmagnsleysi í sögu Bandaríkjanna að sögn ráðgjafafyrirtækisins Rhodium Group. Síðan fellibylurinn reið yfir hefur rafmagn ítrekað slegið út, þar af á allri eyjunni í apríl. 

Stjórnvöld í Púertó Ríkó fagna útgáfu rannsóknarinnar og segja hana gefa skýrari mynd á ástandið í landinu eftir fellibylinn. Carlos Mercader, embættismaður í innanríkisráðuneyti Púertó Ríkó, segir hamfarirnar af völdum Maríu hafa orðð fjölda manns að bana. Hann greinir BBC einnig frá því að niðurstöður annarrar rannsóknar frá George Washington háskóla sé á leiðinni. Niðurstöður beggja rannsókna komi til með að auðvelda undirbúning fyrir náttúruhamfarir framtíðarinnar og koma í veg fyrir dauðsföll, segir Mercader.

Púertó Ríkó er bandarísk hjálenda. Íbúar eyjarinnar eru með bandarískan ríkisborgararétt, en hafa ekki kosningarétt. Einn þingmaður frá Púertó Ríkó er í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, Jenniffer Gonzalez. Hún fær ekki að greiða atkvæði um þingmál.