Á fimmta hundrað fengu úthlutað úr sárafátæktarsjóði

29.11.2019 - 15:04
Mynd með færslu
 Mynd: Rauði kross Íslands
451 einstaklingur hefur notið góðs af sárafátæktarsjóði Rauða krossins á Íslandi síðan úthlutun hófst í mars. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá Rauða krossinum. Sjóðnum er ætlað að styðja við mjög tekjulága einstaklinga.

Mikill meirihluti þeirra sem sótt hafa um úr sjóðnum eru af höfuðborgarsvæðinu. Alls hafa 67 barnlausir einstaklingar hlotið úthlutun, 105 einstæðir foreldrar og alls hafa borist 43 umsóknir frá fólki í sambúð. Að sögn Brynhildar Bolladóttur, upplýsingafulltrúa Rauða krossins á Íslandi, gæti ástæðan fyrir fleiri umsóknum á höfuðborgarsvæðinu en utan þess verið sú að fleiri viti af sjóðnum á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir jafnframt að kostnaður við húsaleigu vegi langþyngst í útgjöldum þeirra sem sótt hafa um í sjóðnum.

Fram að stofnun sárafátæktarsjóðsins hafði Rauði krossinn aðeins stutt við fólk sem býr við mikla fátækt í kringum jólin með jólaaðstoð. Þörfin er hins vegar fyrir hendi allt árið um kring. „Því var stofnaður sérstakur sjóður með 100 milljón króna stofnframlagi af sjálfsaflafé Rauða krossins," segir Brynhildur. Með stofnun sjóðsins sé verið að reyna að svara þessari þörf. „Tilgangur Rauða kross hreyfingarinnar er að vernda líf og heilsu berskjaldaðra hópa og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi," segir Brynhildur. Hún segir Rauða krossinn vilja vera málsvara þessa hóps. Rauði krossinn vill vekja athygli á að hér á landi býr fólk við sárafátækt. Hægt er að sjá nánari upplýsingar um verkefnið á vefsíðunni sarafataekt.raudikrossinn.is. 

Einstaklingar með undir 200 þúsund krónum fyrir skatt í tekjur á mánuði og sambúðarfólki eða hjónum með undir 300 þúsund krónum í tekjur á mánuði uppfylla skilyrði til að fá úthlutað úr sjóðnum. Bætur á borð við húsaleigubætur, barnabætur og meðlag eru ekki teknar inni í þeirri tölu. Einstaklingar sem uppfylla skilyrðin fá 40 þúsund krónur, sambúðarfólk fær 50 þúsund krónur. Styrkurinn hækkar svo um 10 þúsund krónur fyrir hvert barn. Hægt er að fá úthlutað úr sjóðnum tvisvar á almanaksári.

Í skýrslu Hagstofunnar um sárafátækt frá árinu 2016 kom fram að á milli 1-2% Íslendinga hafi lifað við sárafátækt síðustu þrjú árin þar á undan. Enginn teljandi munur var á milli kynja eða aldurs. Fleiri sem búa við sárafátækt voru á leigumarkaði, og fleiri án vinnu. Ekki var marktækur munur á milli þeirra sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu og utan þess.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi