Á enn erfitt með að skilja hvað gerðist

08.01.2016 - 15:00
Mynd: Rætur / RÚV
Davor Purusic er Bosníumaður. Á árunum 1992 til '95 geisaði blóðugt stríð í heimalandi hans. Stríðið dró tugi eða jafnvel hundruð þúsunda til dauða og hrakti milljónir manna á flótta. Davor særðist illa í stríðinu og haustið 1993 var honum boðið að koma til Íslands og fá læknisaðstoð, fyrir milligöngu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Síðan þá hefur hann búið hér á landi.

Davor segist enn í dag, um aldarfjórðungi eftir stríðið, eiga erfitt með að skilja hvað gerðist og hvers vegna. Hvernig hægt hafi verið að sá svona miklu hatri milli þjóðarbrota, sem áður höfðu búið saman í sátt og samlyndi.

„En það er augljóst að það gildir þetta gamla góða, sem er á íslensku: Fólk er fífl. Þannig séð.“

Davor er meðal viðmælenda í næsta þætti Róta, sem sýndur verður á RÚV sunnudaginn 10. janúar kl. 19:45. Rætur er fimm þátta sería um fólk sem á rætur um allan heim en hefur sest að á Íslandi. 

Í sama þætti verður einnig fjallað um sambýli íslenskunnar og allra hinna tungumálanna sem töluð eru á Íslandi í dag. Svo verður rætt við Charlotte Guðlaugsson sem er ein af þeim ríflega þrjúhundruð Þjóðverjum, aðallega konum, sem komu til Íslands sumarið 1949 eftir að hafa ráðið sig í vinnu á íslenskum sveitabæjum. Um helmingur þýska verkafólksins settist að á Íslandi og á í dag vel á annað þúsund afkomendur. Einn af þeim er umsjónarmaður Róta, Sigríður Halldórsdóttir, barnabarn Charlotte.

 

 

sigridurh's picture
Sigríður Halldórsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi