Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Á ekki að vera með réttarstöðu sakbornings“

Mynd með færslu
 Mynd: Hæpið - RÚV
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður segir að það sé mjög sérkennilegt að maður sem handtekinn var grunaður um manndráp hafi enn stöðu grunaðs manns en gangi laus. Öðrum mannanna sem handteknir voru eftir að Birna Brjánsdóttir hvarf var sleppt í gær. Hann er ekki grunaður um að hafa orðið henni að bana en hefur enn stöðu sakbornings.

Vilhjálmur gagnrýndi í Morgunútvarpinu á Rás 2 í dag að maðurinn hefði enn stöðu grunaðs manns. Hann taldi helst hægt að skýra það með því að lögregla vildi eiga betri möguleika á að fá hann framseldan síðar meir ef hún teldi ástæðu til þess. Hann sagði þetta þó ekki ásættanlegt. „Ef maðurinn er ekki lengur grunaður um manndrápið á hann ekki að vera með réttarstöðu sakbornings. Þá breytist bara réttarstaðan hans yfir í það að vera vitni,“ sagði Vilhjálmur.

Mennirnir tveir voru upphaflega úrskurðaðir í allt að tveggja vikna gæsluvarðhald en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór fram á fjögurra vikna varðhald. Gæsluvarðhald yfir öðrum manninum var framlengt í gær en hinum manninum sleppt. Vilhjálmur sagði það merkilegt að manninum væri sleppt sama dag og gæsluvarðhaldið rynni út því sleppa ætti mönnum um leið og ljóst væri að ekki væri lengur nauðsynlegt að halda þeim vegna rannsóknarinnar eða almannahagsmuna. 

Vilhjálmur sagði að lögmaður mannsins sem var sleppt í gær hlyti að skoða það alvarlega að fara í skaðabótamál við ríkið vegna handtökunnar og gæsluvarðhaldsins. Hann hlyti einnig að fara yfir fjölmiðlaumfjöllun um málið með hliðsjón af því hvort hún gæfi tilefni til að fara í meiðyrðamál við þá fjölmiðla sem hefðu nafngreint sakborningana tvo. Vilhjálmur nefndi sérstaklega Stundina og DV sem hefðu birt myndir af mönnunum.