Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Á eftir að innleiða innan við 1% EES-gerða

16.07.2019 - 19:11
Innlent · EES · EFTA · ESA
epa05255492 A general view shows members of the European Parliament voting during a plenary session in the European Parliament in Strasbourg, France, 12 April 2016. The house votes on a centralized asylum system for Europe.  EPA/PATRICK SEEGER
Frá Evrópuþinginu í Strassborg. Mynd: EPA
Svokallaður innleiðingarhalli Íslands vegna EES-gerða, það er, tilskipana og reglugerða, er innan við eitt prósent, í þriðja sinn í röð. Þetta hefur aldrei gerst áður samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Í nýbirtu frammistöðumati Eftirlitsstofnunar EFTA kemur fram að það eigi eftir að innleiða 0,7 prósent EES-gerða hér á landi, sex tilskipanir og 38 reglugerðir.

Í tilkynningu frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) segir að þrjár af þessum sex óinnleiddu tilskipunum hafi beðið afgreiðslu í meira en tvö ár. Reglugerðum hafi fjölgað úr 35 í 38. Helmingur þeirra er á sviði fjármála og umhverfismála.

Eftirlit eigi að tryggja góða framkvæmd

Ísland hefur sem aðili að EES-samningnum skuldbundið sig til þess að innleiða tilskipanir og reglugerðir EES. Í tilkynningu ESA segir að stofnunin hafi eftirlit með framkvæmdinni svo hægt sé að tryggja að framkvæmd EES-samningsins sé með bestu móti og aðstæður á innri markaði góðar svo samkeppni haldist virk. Það bæti lífs- og starfsskilyrði allra borgara innan EES. 

Árangurinn komi ekki á óvart

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að innleiðingarhallinn hafi aukist frá síðasta mati, en þá var hann 0,5 prósent. Þar áður, fyrir ári síðan, var hann eitt prósent. Því hafi dregið verulega úr hallanum undanfarið ár. Þá sé þetta í þriðja sinn sem hann er ekki meira en eitt prósent. Árið 2013 hafi hann numið 3,2 prósentum.

„Þessi árangur kemur mér ekki á óvart enda hef ég lagt á það áherslu í embætti utanríkisráðherra að bæta framkvæmdina á EES-samningnum. Bætt framkvæmd eykur möguleika okkar á að hafa áhrif á lagasetninguna á fyrri stigum, sem hefur ef til vill aldrei verið mikilvægara en nú,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Ríkin verði að leggja sig betur fram 

Í tilkynningu frá ESA segir að hallinn hafi aukist í EFTA-ríkjunum Íslandi, Noregi og Liechtenstein, frá síðasta mati. Ríkin verði að leggja sig betur fram við að tryggja tímanlega framkvæmd EES-samningsins, segir í skýrslu frá stofnuninni.

Innleiðingarhalli Noregs stendur í 0,4 prósentum, en var áður 0,1. Í Liechtenstein jókst hann úr 0,6 prósentum í 0,9 prósent. Samanlagt var halli EFTA-ríkjanna innan EES 0,7 prósent. 

Frammistöðumat birt tvisvar á ári

Eftirlitsstofnunin birtir frammistöðumat tvisvar á ári. Þar er tekinn saman árangur ríkjanna þriggja innan Evrópska efnahagssvæðisins við innleiðingu EES-gerða. 

Í skýrslu frá Eftirlitsstofnuninni kemur fram að af 101 máli sem hún hafi til afgreiðslu snúist 50 um seinagang við innleiðingu reglugerða eða tilskipana. Í 51 máli reynir á hvort hún hafi verið rétt innleidd eða beitt með tilskildum hætti.