Á eftir 200 kílómetra á suðurskautið

Mynd með færslu
 Mynd:

Á eftir 200 kílómetra á suðurskautið

06.01.2013 - 12:16
Vilborg Arna Gissurardóttir Suðurpólfari á nú eftir einn sjötta af leið sinni þangað. Hún sækir viðbótarvistir í dag sem eiga að duga þar til hún kemst á pólinn. Ekki komi annað til greina en að ljúka þeim 200 kílómetrum sem eftir eru af leiðinni.

Vilborg hefur nú gengið í 48 daga á leið sinni að Suðurpólnum en tilgangurinn með göngunni er að safna fé fyrir styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans, Líf. Þegar fréttastofa náði tali af Vilborgu í morgun var hún komin inn á 88. breiddargráðu og á því eftir tvær breiddargráður, eða um 200 kílómetra, á áfangastað. Þangað stefnir hún að því að komast eftir átta daga.

Vilborg segir gönguna almennt hafa gengið vel, þó að aðstæður séu verri en oft áður. Skaflarnir séu stærri og nái yfir lengra svæði þannig að förin verði hægari fyrir vikið, en alls ekki ómöguleg.

Að auki sé farið að snjóa, og þurr snjórinn geri það erfiðara að draga búnaðinn. Vilborg segist ekki með nægar vistir til þess sem eftir lifir göngunnar enn sem komið er, en ný sending sé í 10 kílómetra fjarlægð, sem hún geti nálgast í dag. Það sé matur sem dugi henni út dvölina. Algengt sé að menn fái birgðarsendingar og það sé mjög auðvelt að koma því fyrir. Hún hafi ekki átt við neinn matarskort að stríða.

Vilborg segir að sér hafi liðið mjög vel á göngunni. Tíminn hafi liðið hratt, enda varla stoppað frá morgni til kvölds. Og það komi ekkert annað til greina en að ná pólnum þótt ferðin hafi stundum verið erfið. Vissulega komi það fyrir að fólk hætti í leiðangrum, en hana hreinlega langi það mikið að ná Suðurpólnum að hún hafi enn ekki hugleitt það að hætta.

Tengdar fréttir

Fólk í fréttum

Les um Gísla á Uppsölum á Suðurpólnum

Mannlíf

Vilborg búin að ganga 700 kílómetra

Fólk í fréttum

Vilborg nálgast annan Suðurpólfara

Fólk í fréttum

Vilborg Arna búin að ganga þriðjung ferðar