Á breska konungsveldið eftir að liðast í sundur?

21.12.2019 - 07:00
epa08081642 Britain's Queen Elizabeth ll and Prince Charles, Prince of Wales arrive back at Buckingham Palace, after attending the Opening of Parliament in London, Britain, 19 December 2019. The Queen read a speech from the the throne in the House of Lords and open Parliament.  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Breski Íhaldsflokkurinn, leiddur af Boris Johnsson forsætisráðherra, vann sögulegan sigur í þingkosningunum í síðustu viku. Helsti keppinauturinn, Jeremy Corbyn leiðtogi Verkamannaflokksins, beið afhroð. En hvað þýða þessi úrslit fyrir Breta? Sumir hafa áhyggjur af því að sameinaða konungsríkið Bretland liðist í sundur og jafnvel að það komi til átaka á Norður-Írlandi að nýju.

Það hefur líklega ekki farið framhjá þeim sem fylgdust með fréttum síðustu vikuna að Boris Johnsson burstaði Jeremy Corbyn í þingkosningunum í Bretlandi 12. desember. Í neðri málstofu breska þingsins, eru 650 sæti. Íhaldsflokkurinn sem Johnson leiðir fékk 365 þeirra - og bætti þar með við sig heilum 48 sætum frá síðustu kosningum. Íhaldsflokkurinn fékk sem sagt áttatíu fleiri sæti en allir hinir flokkarnir til samans. Það skal því engan undra að stuðningsfólk flokksins var létt í lund þegar niðurstöðurnar voru kynntar.

Það var eitthvað minna um kæti hjá Verkamannaflokknum sem tapaði sextíu þingmönnum frá síðustu kosningum. Verkamannaflokkurinn fékk 202 þingmenn. Það er næstum öld síðan flokkurinn galt viðlíka afhroð. Fréttaskýrendur segja margir að þetta arfaslaka gengi megi rekja til leiðtogans Jeremys Corbyns og óljósrar stefnu flokksins í Brexit-málum. Jeremy Corbyn ætlar að hætta sem leiðtogi Verkamannaflokksins og mögulegir arftakar eru þegar farnir að láta á sér kræla. Emely Thornberry, talskona flokksins í utanríkismálum, tilkynnti á miðvikudag að hún sæktist eftir embættinu og fleiri hafa verið orðuð við framboð. En ólíkt Corbyn var Boris Johnsson með skýr og frekar einföld skilaboð hvað varðar Brexit, bæði í kosningabaráttunni og eftir að niðurstöðurnar voru kynntar.

epa08082231 A handout photo made available by the UK Parliament shows British Prime Minister Boris Johnson (R) and the Labour leader Jeremy Corbyn (L) during the State Opening Of Parliament in the House of Commons, in London, Britain, 19 December 2019.  EPA-EFE/JESSICA TAYLOR/UK PARLIAMENT / HANDOUT MANDATORY CREDIT: UK PARLIAMENT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - UK PARLIAMENT
Corbyn og Johnsson, annar var glaður eftir kosningar en hinn ekki.

Nú getum við loksins drifið Brexit af, sagði Johnson. Það er einmitt það. Þetta blessaða Brexit sem hefur yfirtekið breskt samfélag og bresk stjórnmál síðustu ár. Rétt rúm fimmtíu prósent Breta kusu með útgöngu úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016. Síðan þá hafa Bretar verið á leið út úr ESB. Fyrst átti útgangan að verða 29. mars á þessu ári. Theresa May þáverandi forsætisráðherra var búin að semja við ESB um það hvernig útgöngunni yrði háttað en breska þingið hélt nú ekki, samningurinn var felldur þar þrisvar sinnum. Þá átti útgangan að verða 31. október ekki varð af því þar sem Boris Johnson, arftaki May, fékk heldur ekki stuðning þingsins við sinn samning um útgönguna. Því var boðað til kosninga og niðurstaðan sú að Íhaldsflokkurinn hefur nú vænan meirihluta á þinginu. Það hafði hann ekki eftir kosningarnar sem Theresa May boðaði til 2017. Eftir þær kosningar þurfti ríkisstjórn May að reiða sig á stuðning DUP, Lýðræðislega sambandsflokksins á Norður-Írlandi.

Fá Skotar að kjósa aftur um sjálfstæði?

Í vikunni benti Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands og leiðtogi SNP sem var ótvíræður sigurvegari kosninganna í Skotlandi, á að það leiki enginn vafi á því að Skotar hafi hafnað Íhaldsflokknum og Boris Johnsson. Þá ítrekar hún að Skotar vilji ekki yfirgefa Evrópusambandið, meirihluti þeirra kaus gegn Brexit í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Stefnuskrá flokksins var skýr: Vinni SNP sigur í kosningunum eru það skýr skilaboð um að Skotar fái að kjósa aftur um sjálfstæði á nýju ári. Haustið 2014 gengu Skotar til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði, þá kusu rúm 55% þeirra gegn sjálfstæðu Skotlandi. Í ávarpi sínu á miðvikudag biðlaði Nicola Strugeon til skosku þjóðarinnar um að sameinast um rétt Skota til þess að ákveða sjálfir hvernig þeir haga sínum málum. SNP bætti við sig þrettán þingmönnum og hefur nú 48 af þeim 59 þingsætum í Skotlandi. Íhaldsflokkurinn tapaði aftur á móti sjö sætum. Sturgegon segist átta sig á því að það sé ekki gefið að öll þau sem kusu flokkinn séu fylgjandi sjálfstæði Skota. Á næstu mánuðum ætlar SNP að leggja fram ítarlegar upplýsingar um næstu skref og hvað það þýðir fyrir Skota fái þeir sjálfstæði. Það er vert að nefna að SNP fékk 45% atkvæða í Skotlandi. En hvert  kjördæmi er einmenningskjördæmi sem þýðir að aðeins einn þingmaður nær inn á þing, sá sem fær flest atkvæði. Þess vegna er oft misræmi á milli fjölda þingmanna og fylgi flokka í prósentum.

Brexit „rétt að hefjast“

Skotar vilja ekki Íhaldsflokkinn og ekki Brexit, Íhaldsflokkurinn er samt sem áður við stjórn og ætlar að ljúka Brexit, get Brexit done. Það er viðbúið að Johnson nái útgöngusamningnum í gegnum þingið nokkuð auðveldlega en þá er björnin samt ekki unninn. Við skulum rifja upp það sem Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í London, sagði í lok október um útgöngusamninginn. „Samningurinn milli Borisar Johnsson og Evrópusambandsins er viðskilnaðarsamningur og lýtur eingöngu að útgöngunni sem slíkri. Hinsvegar á eftir að semja um framtíðina. Hvað tekur við þegar biðtímanum lýkur og útgangan er yfirstaðin. Það er viðamikil og flókin vinna og mun taka mikinn tíma þannig að það mætti halda því fram að Brexit sé rétt að hefjast við sjálfa útgönguna,“ sagði sendiherrann. Þar hafiði það, þið þurfið þá ekki að hafa áhyggjur af því að heyra ekki meira af Brexit í náinni framtíð ef þið voruð farin að örvænta.

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Stefán Hakur Jóhanesson sendiherra Íslands í Lundúnum.

Stóra-Bretland og Írland

Bretland samanstendur af Englandi, Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi. Norður-Írland er það eina sem á eiginleg landamæri að öðru ríki. Það er nefnilega ekki á sömu eyju og hin þrjú. England, Skotland og Wales eru öll á Bretlandseyjum, þar við hliðina er svo eyjan Írland sem er skipt í tvennt. Norður og suður. Írland er í Evrópusambandinu, Norður-Írland er hluti af Bretlandi sem bráðum gengur út úr ESB. Einmitt þarna er eitt helsta þrætueplið og vafstrið í kringum Brexit. Öllum er mjög í mun að landamærin verði opin og án hindrana, miklir viðskiptahagsmunir eru undir og svo er ákvæðið um opin landamæri mikilvægur hluti friðarsamningsins sem batt enda á áratuga ófrið á Norður-Írlandi. Ófriður sem gjarnan er kallaður The Troubles eða vandræðin.

Vandræðin er kannski óttalega saklaust nafn fyrir þriggja áratuga blóðug átök sem enn eimir af í dag. Við ætlum heyra aftur í leigubílstjóranum Jim í Belfast. Hann ólst upp í borginni á Troubles-tímunum og í dag keyrir hann um átakasvæðin með fólk sem vill vita meira. Af hverju er það bara eitt atvik sem fólk þekkir? spyr Jim. Hann svarar því svo sjálfur og segir að dauðsföll átakanna fái mismikla athygli og þeim sé stigskipt. Á toppnum sitji þau sé féllu sunnudaginn blóðuga.

Bloody Sunday er ekki bara vinsælt lag með írsku hljómsveitinni U2. Sunnudaginn þrítugasta janúar 1972 skutu breskir hermenn á fólk í mótmælagöngu í borginni Derry eða Londonderry nærri landamærunum að Írlandi. Tuttugu og átta manns voru skotin, þrettán létust samstundis og einn til viðbótar af sárum sínum. Þennan atburð þekkja margir en færri vita kannski að á fjórða þúsund létust í átökunum og næstum fimmtíu þúsund særðust.

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - RÚV
Vegglistaverk eru áberandi í Belfast. Þessi mynd af Bobby Sands, IRA-meðlim sem lést í fangelsi eftir hungurverkfall, prýðir höfuðsöðvar Sinn Fein.

Annað og meira en átök trúarhópa

Þótt átökin hafi verið á milli trúarhópa, kaþólikka og mótmælenda, liggur annað og meira að baki en trúarbrögð - eins það gerir nú oftast. Til þess að gera langa og flókna sögu stutta þá má rekja upphaf átakanna til klofnings eyjunnar Írlands. 1920 var henni skipt í tvö ríki sem höfðu fullveldi innan breska heimsveldisins. Á Írlandi voru sjálfstæðissinnaðir kaþólikkar í meirihluta en á Norður-Írlandi var meirihluti fólks mótmælendur og sambandssinnar, það er þau vildu áfram vera hluti af konungsdæminu Bretlandi. Mótmælendur höfðu áhyggjur að því að kaþólikkar myndu reyna að sameina Norður-Írland og Írland á ný og héldu þeim þess vegna frá völdum. Mótmælendur leggja mikla áherslu á að varðveita sambandið við Bretland og það er enn þann dag í dag nokkuð sýnilegt þegar keyrt er um Belfast. Í hverfum þar sem mótmælendur búa er breski fáninn ekki langt undan á meðan írsku fánalitirnir eru áberandi í hverfum kaþólikka. Sem sagt átökin eru ekki trúarlegs eðlis heldur snúast um þjóðerni og sjálfsmynd. Jim, leigubílstjórinn í Belfast, lagði hann mikla áherslu á það að á bak við tölurnar sem segja okkur það hversu mörg létust í átökunum sé fólk.

Það var saklaust fólk sem þjáðist mest, segir Jim. Það er yfirleitt raunin í átökum og stríði. Jim sýnir okkur staði þar sem búið er að setja upp minnisvarða um fólk sem var myrt, beggja vegna veggjanna, eða múrana, sem voru byggðir víðs vegar um Belfast til þess að reyna að sporna við átökunum. Flestir standa þeir enn og einn sá þekktasti stendur milli Shankill Road - þar sem sambandssinnar og mótmælendur búa og Irish Republican Falls Road þar sem lýðveldissinnar og kaþólikkar búa. Við endann stendur svo víggirt lögreglustöðin.

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - RÚV
Minningargarðurinn í kaþólikkamegin í Belfast.

Jim segir lögreglumenn sinna hættulegasta starfinu á Norður-Írlandi. Það er raunar ekki lengra síðan en í apríl á þessu ári sem ung kona var skotin til bana. Jim segir að þótt flestir haldi að The Troubles heyri sögunni til, sé það alls ekki svo. Samtök sem kalla sig Nýja írska lýðveldisherinn viðurkenndu fyrr á árinu að eiga sök á morði norðurírsku blaðakonunnar Lyru McKee. Hún var skotin til bana í Creggan-hverfinu í Derry eða Londonderry í apríl þar sem hún fylgdist með óeirðum sem þar geisuðu. Lyra Mckee var ekki lögregluþjónn en samtökin sem bera ábyrgð á morðinu sögðust hafa skotið hana fyrir slysni, skotið hafi verið ætlað lögreglumanni.

Í skoðunarferðinni með Jim ítrekar hann að það sé mikilvægt að muna að það sem fyrir augu ber sé það sem báðir hópar vilji sýna fólki. Þekktustu fylkingarnar sem börðust í átökunum eru írski lýðveldisherinn IRA kaþólikkamegin og UVF Ulster Voulunteer force mótmælendamegin. Á einum stað í Belfast, í miðju mótmælendahverfi hefur verið settur upp póstkassi. Þar er fólk hvatt til þess að skilja eftir upplýsingar um fólk sem var drepið af IRA. Tilgangurinn með þessu er að safna nöfnum og myndum af fólkinu og minnast þeirra opinberlega. Jim bendir okkur á mynd af 17 mánaða barni sem var myrt. Yngstu fórnarlömb átakanna voru ungbörn, og  óléttar konur voru myrtar.

Kaþólikkamegin í borginni er Minningargarðurinn einn frægasti minnisvarðinn um fallna kaþólikka. Hann prýða blómakransar í fánalitum Írlands og nöfn og aldur látinna IRA félaga blasa við. Þeirra á meðal eru börn og unglingar. Yngsti tólf ára og næst yngst er Eileen Macklin, fjórtán ára. Því er eins farið mótmælendamegin segir Jim. Mörg voru aðeins unglingar þegar þau létust/voru drepin. Getur þú lesandi góður ímyndað þér hvernig það er að alast upp við þessar aðstæður?

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - RÚV
Minngarveggur mótmælendamegin í Belfast.

Stöðugar áhyggjur og ótti

„Morð og sprengjuárásir áttu sér enn stað. Miðborg Belfast var ekki endilega staður sem þú fórst á,“ segir Michael Nevin sem bjó í Belfast fyrstu 18 ár ævi sinnar á þeim tíma sem átök geisuðu. Nevin hefur ekki búið í Belfast síðan hann var átján ára. Hann hefur búið hér á Íslandi síðustu þrjú ár og gegnir embætti sendiherra Bretlands hér á landi. Hann segist sjá mun á borginni í hvert sinn sem hann fer þangað.

Nú er Belfast eins og hver önnur borg í Bretlandi segir Nevin. Þegar hann var ungur var ekki þrautalaust að skreppa þangað til þess að versla, vopnuð lögreglan leitaði gaumgæfilega á hverjum og einum og allir þurftu að ganga í gegnum stórt járnhlið, eins konar eftirlitsstöð. Að alast upp við þessar aðstæður hafði margvísleg áhrif á hann. Nevin segir það hafa fengið sig til þess að láta hugann reika um það hvort þetta væri raunverulega allt sem lífið hefði upp á að bjóða. Stundum hugsar hann um það hvort tíminn í Belfast hafi gert það að verkum að hann kaus líf diplómata, sem ferðast um heiminn og stoppar ekki endilega lengi á hverjum stað. 

Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi.
 Mynd: Sturla Skúlason Hólm - RÚV
Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, ólst upp í Belfast á ófriðartímum.

Og ástandið er sannarlega ekki eins í Belfast í dag. Formlega var samið um frið árið 1998. Nánar tiltekið þann 10. apríl, sem bar upp á föstudaginn langa og er samkomulagið kennt við hann, Good Friday agreement. Nevin hefur ekki jafn miklar áhyggjur og Jim, leigubílstjóri, af því að ófriður blossi upp aftur á Norður-Írlandi. Hann segir að það sé afar fámennur hópur sem virðist vilja grípa til átaka á ný. Það sé hins vegar fagnaðarefni að það sé mikil samstaða á bæði innan samfélagsins í heild og hjá stjórnmálafólki um það að halda friðinn.

Það skiptir fólkið sem býr á eyjunni Írlandi miklu máli að þar verði ekki sett upp harðlínulandamæri aftur. Um það snýst einmitt hin svokallaða baktrygging eða backstop. Brexit-áhugafólk hefur líklega heyrt á það minnst áður en það er sá hluti útgöngusamningsins sem á að tryggja opin landamæri á Írlandi sama hvað. Og talandi um Brexit, við skulum rýna aðeins í niðurstöður kosninganna á Norður-Írlandi. Bogi Ágústsson fréttamaður hefur fjallað um bresk stjórnmál í nokkur. Hann segir okkur hvers vegna niðurstöður kosninganna á Norður-Írlandi eru eftirtektarverðar. „Merkilegast við þessar niðurstöður er að Norður-Írar í fyrsta skipti kjósa fleiri þjóðernissina en sambandssinna á breska þingið. Nú er það hinsvegar svo að þjóðernissinarnir sem margir eru úr Sinn Fein sem að er, var, mjög tengt írska lýðveldishernum, þeir taka ekki sæti á breska þinginu. Þeir geta ekki hugsað sér að sverja breska konungsveldinu hollustu sína. Þannig að raunverulega munu sambandssinnarnir verða fleiri á þinginu frá Norður-Írlandi en þjóðernissinnar voru fleiri sem voru kjörnir og þetta eru umtalsverð pólitísk tíðindi á Norður-Írlandi,“ segir Bogi. 

Ekki alfarnir þótt útgangan verði í janúar

Lítum örstutt á næstu skref í Brexit-málum. Í gær var Brexit samningur Boris Johnssons samþykktur með 358 atkvæðum gegn 234. Fátt virðist því vera því til fyrirstöðu að Bretland segi skilið við Evrópusambandið í lok næsta mánaðar. „En, Bretar eru ekki alveg farnir,“ segir Bogi. Bretar verða nefnilega áfram á innri markaði ESB og halda áfram að greiða til sambandsins út árið 2020. „Þeir verða í tollabandalaginu. Þeir verða að sumu leyti í svipaðri stöðu og Norðmenn, Lichtensteinbúar og Íslendingar, þurfa að hlýða reglum sambandsins en hafa engin áhrif á það. Johnsson hefur lýst yfir því að hann ætli ekki að sækjast eftir frekari fresti þannig að í árslok 2020 þá fara Bretar út, ef hann stendur við það, og þá fara þeir hugsanlega samningslausir vegna þess að tíminn sem þeir hafa frá útgöngunni 31. janúar og fram til áramóta er mjög stuttur til þess að semja um gríðarlega víðtæka viðskiptasamninga. Þannig að líkurnar á því að þeir fari út samningslausir eru umtalsverðar,“ segir Bogi.