Á annan milljarð í undirbúning borgarlínu

30.05.2019 - 14:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa undirritað samkomulag um að leggja 800 milljónir króna í tæknilegan og fjárhagslegan undirbúning að borgarlínu á þessu ári og næsta. Samkomulagið er gert með fyrirvara um að sama framlag komi frá ríki og að samkomulag náist milli ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033. Því er ætlað að heildarfjárhæðin til undirbúningsins á þessu ári og næsta nemi um 1,6 milljarði.

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti samninginn fyrir sitt leyti á bæjarstjórnarfundi i fyrradag. Borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórn Garðabæjar og bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafa einnig samþykkt samkomulagið.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu stendur fyrir dyrum að fara í mikla og kostnaðarsama vinnu við greiningu á heildarkostnað við verkefni, að ráðst í útboð og annað slíkt. Þá þarf að ákveða hvaða rekstrarmódel verður notað, ákveða endanlega skiptingu milli sveitarfélaga og hver aðkoma sveitarfélaganna annars vegar og ríkisins hins vegar á að vera. Verkefnið sé algjörlega háð því að sameiginlegur skilningur verði milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu. 

Þetta er í takti við bókun sveitarfélaganna þar sem kemur fram að verkefnið sé mikilvægur liður í því samkomulagi sem unnið er að á milli ríkisins og sveitarfélaganna um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033. 

„Samkvæmt erindisbréfi starfshóps sem vinnur að því er markmiðið að komast að samkomulagi um fjármögnun 102 milljarða fjárfestingaráætlunar í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu, eða um 7 milljarða á ári í 15 ár. Uppbygging samgangna á höfuðborgarsvæðinu, stofnbrauta, almenningssamgangna og hjóla- og göngustíga, er afar brýnt viðfangsefni til að ná fram markmiðum um betra umferðarflæði, meira öryggi vegfarenda og til að draga úr mengun á svæðinu,“ segir í bókuninni.

Þá segir að samþykkt fyrirliggjandi samninga um næstu skref hvað almenningssamgöngurnar varðar sé mikilvæg en framhald heildaruppbyggingar samgöngumannvirkjanna ráðist síðan af því hvort ásættanlegur samningur náist á milli ríkis og sveitarfélaga.
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi