Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Á 0,3% af Íslandi

19.04.2017 - 17:49
Mynd: INEOS Group / Jim Ratcliffe
Á stuttum tíma er breski auðmaðurinn Jim Ratcliffe orðinn einn stærsti landeigandinn á Íslandi, á nú um 0,3 prósent af Íslandi. Hann auðgaðist á efna- og lyfjaiðnaði en á Íslandi miðast fjárfestingar hans við náttúruvernd sem eiga þó að vera sjálfbærar, segir hann, ekki byggja á gjafafé.

Efnaiðnaður, gasvinnsla og jeppahönnun

Jim Ratcliffe fæddist inn í millistéttarfjölskyldu í Manchester, fór í efnaverkfræði og viðskiptanám og vann í fjármálageiranum um tíma áður en hann fór út rekstur og fjárfestingar, einkum í efna- og lyfjaiðnaði. Hann á meirihlutann í einkahlutafélaginu Ineos, ferðast um á einkaflugvél og á tvær snekkjur.

Umsvif Ineos hafa á köflum verið til umfjöllunar í breskum fjölmiðlum. Fyrirtækið hefur nokkrum sinnum lent upp á kant við verkalýðsfélög. Höfuðstöðvar Ineos voru fluttar til Sviss 2010 þegar Ratcliffe var ósáttur við skattastefnu ríkisstjórnar Verkamannaflokksins en í fyrra flutti félagið þó aftur til Bretlands. Helsta áhugamál Ratcliffes núna er að hanna og framleiða jeppa í Bretlandi, eitthvað í líkingu við uppáhaldið hans, Land Rover Defender, sem er hætt að framleiða.

Bergbrot og laxavernd

Umsvifamaðurinn sem auðgaðist á efnaiðnaði og stefnir á umdeilda gasvinnslu í Bretlandi með bergbroti eða ,,fracking” er nú orðinn einn stærsti landeigandi á Íslandi en þar er náttúruvernd eða laxavernd honum efst í huga. Ratcliffe hefur keypt þrjár jarðir í Vopnafirði, Síreksstaði, Háteig og Guðmundarstaði og á rúman þriðjung í veiðifélaginu Streng sem aftur á 23 jarðir í Vopnafirði. Og hann á hús við Vesturdalsá.

Grímsstaðir á Fjöllum voru auglýstir til sölu í haust. Eins og kunnugt er hafði kínverski umsvifamaðurinn Huang Nubo um tíma áhuga á að kaupa þá jörð. Í vetur keypti Ratcliffe 72 prósent Grímsstaða. Ríkið á 25 prósent og einn landeigandi vildi ekki selja sinn þriggja prósenta hlut.

Gildi ósnortinnar náttúru fyrir laxinn og mannfólkið

Í huga Ratcliffes er ferðaþjónusta vaxandi atvinnuvegur jafnt á Íslandi sem víðar. ,,Mannskepnan hefur eyðilagt umhverfið víða um heiminn,” segir Ratcliffe. ,,Ósnortnir staðir eru einstakir. Það gefur landi gildi að það er ósnortið af manninum því fólk vill gjarnan fara á slíka staði.” Óbyggðirnar á Íslandi laða að ferðamenn, segir Ratcliffe sem ekki hyggur á neinar framkvæmdir á Grímsstöðum.

Þó Ratcliffe sé stórtækur í jarðakaupum þá er hann ekki eini útlendingurinn sem hefur keypt jörð á Íslandi. Aðrir hafa þó yfirleitt aðeins keypt sér samastað á Íslandi. Í löndum sem hafa laðað að sér ferðamenn er ekki óalgengt að erlendir auðmenn kaupi eignir til sveita. Fjárfestingar Ratcliffes eru þó mun umfangsmeiri en svo og beinast allar í eina átt, að því að styðja við laxagengd í ám í Vopnafirði og stjórnun laxveiðanna á svæðinu.

Fjárfesting til að bæta aðstæður laxins

Ratcliffe hefur á undanförnum árum ferðast bæði til Norður- og Suðurskautsins og hefur um árabil komið til Íslands í veiði. Laxinn, þessi glæsilegi fiskur sem áður setti svip sinn á ár í Evrópu, hefur svo víða horfið. Af kynnum sínum sannfærðist Ratcliffe um að það mætti bæta aðstæður í laxveiðiám í Vopnafirði og styrkja þannig laxastofninn í Norður-Atlantshafi. Þetta ósnortna land á Íslandi geri landið að sérstökum stað fyrir laxinn, segir Ratcliffe en aðstæðurnar megi þó bæta og í það vilji hann leggja fé.

Fjárfestingar hans eiga að stýrast af heilbrigðri skynsemi um hvernig sé best að haga laxveiðum. Það eigi að sleppa laxinum en ekki drepa hann, hafa stjórn á veiðitímanum, aðeins veiða á flugu og síðan byggja laxastiga í ám eftir því sem þarf. Með laxastiga í Hofsá sé til dæmis hægt að bæta 70 kílómetrum við hrygningarstað laxsins og það munar um það.

Vilji til að halda jörðunum í ábúð

Í viðtali við Austurgluggann í vetur sagði Sigríður Bragadóttir, einn eigenda Síreksstaða sem Ratcliffe hefur keypt, að eigendurnir hefðu ákveðið að selja Ratcliffe af því hann vildi halda jörðinni í ábúð. Ratcliffe segir að hann vilji að áfram verði búið á jörðinni. Hann geti ekki tryggt að svo verði en að það standi ekki til að ábúendur borgi leigu af jörðinni.

Í samtali við Spegilinn vildi Ratcliffe ekki gefa upp hvað hann hefði greitt fyrir jarðakaupin eða tilgreina upphæðina sem hann hefði varið til fjárfestinga á Ísandi. Það væri veruleg upphæð en málstaðurinn góður og hann sáttur við kaupin. Þegar Grímsstaðir voru auglýstir til sölu var uppsett verð 780 milljónir króna. Samkvæmt heimildum Spegilsins þykir ólíklegt að Ratcliffe hafi borgað það verð. Nær sé að giska á 400 til 500 milljónir króna.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV