95,5 prósent styðja vinnustöðvun

26.01.2020 - 14:08
Mynd: Eggert Jónsson / RÚV
Talningu á atkvæðagreiðslu Eflingar um verkföll 1.800 starfsmanna Reykjavíkurborgar er lokið. 95,5 prósent þeirra sem greiddu atkvæði styðja verkfallsaðgerðir gegn Reykjavíkurborg. Nei sögðu 3,1 prósent og 1,4 prósent tóku ekki afstöðu.

Verkföllin taka til starfsmanna Reykjavikurborgar á leikskólum, hjúkrunarheimilum og ýmsum störfum á umhverfis- og skipulagssviði. 

Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var 59,2 prósent. 

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fagnar því að félagsmenn hafi tekið undir tillögu samninganefndar um boðun verkfallsaðgerða. „Ég hef fundið fyrir gríðarlegum baráttuvilja meðal starfsmanna í fjölmörgum heimsóknum mínum á vinnustaði borgarinnar síðan í haust. Fólk er orðið langþreytt á því að vinna fyrir sultarlaunum við vaxandi álag og erfiðar aðstæður. Metkosningaþátttaka, svo ekki sé talað um yfirgnæfandi vilja til aðgerða, sýnir svo ekki verður um villst að við erum á réttri leið og höfum fjöldann á bakvið okkur. Með þennan vind í seglunum eru okkur allir vegir færir í baráttunni við borgina,“ er haft eftir henni í tilkynningu frá Eflingu.  

Formleg verkfallsboðun verður afhent borgaryfirvöldum og ríkissáttasemjara fyrir hádegi á morgun.

Skipulag verkfallsaðgerða verður með eftirfarandi hætti:

·       Þriðjudagur 4. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.

·       Fimmtudagur 6. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.

·       Þriðjudagur 11. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.

·       Miðvikudagur 12. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.

·       Fimmtudagur 13. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.

·       Mánudagur 17. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og ótímabundið eftir það.

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi