
93% skjólstæðinga Kvennaathvarfs sættu andlegu ofbeldi
Aðspurðar um ástæður þess að þær leituðu hjálpar nefndu flestar konurnar fleiri en eina ástæðu. Nær allar konurnar, eða 93 prósent þeirra, sögðust hafa verið beittar andlegu ofbeldi. 60 prósent urðu fyrir líkamlegu ofbeldi og rúmur helmingur, 54 prósent, sagðist hafa óttast um líf sitt einhverntímann í sambandi sínu við ofbeldismanninn. Nær helmingur kvennanna var beittur fjárhagslegu ofbeldi.
Þá nefndi ríflega þriðjungur kvennanna kynferðislegt ofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Einni af hverjum fjórum konum sem leituðu til Kvennaathvarfsins hafði verið hótað lífláti og jafnmargar verið teknar kyrkingartaki. Ein af hverjum fimm mátti þola stafrænt ofbeldi og sextán prósent kvennanna voru ofsótt af eltihrelli. Gerendur voru í 95 prósentum tilfella karlmenn, langflestir íslenskir.