Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

911 börn aðskilin frá foreldrum við landamærin

31.07.2019 - 05:27
epa06850808 Migrant families are processed at the Central Bus Station before being taken to Catholic Charities in McAllen, Texas, USA, 29 June 2018, before being moved to other locations in the US. Immigration along the Rio Grande in Texas has become a
 Mynd: EPA
Alls hafa 911 börn og ungabörn verið aðskilin frá foreldrum sínum við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó eftir að dómari komst að þeirri niðurstöðu árið 2018 að koma ætti í veg fyrir aðskilnað fjölskyldna.

Bandarísku mannréttindasamtökin ACLU segja að stjórn Donalds Trumps forseta aðskilji fjölskyldur af minnsta tilefni, af vafasömum ástæðum og litlum sökum, til að mynda fyrir minni háttar umferðarlagabrot.

Samtökin hafa kært aðskilnaðinn og óskað þess að úrskurðað verði um réttmæti þess að taka 911 börn af foreldrum sínum frá 28. júní í fyrra til 29. júní á þessu ári.

Í júní í fyrra komst dómari að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að skilja að fjölskyldur við landamærin væri óheimilt nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, til að mynda þegar börn væru í hættu. Hann fól yfirvöldum að meta hvert mál fyrir sig.

Börn tekin af foreldrum fyrir minniháttar sakir

Síðan þá hefur barn verið tekið af foreldri sem gerðist sekt um eignaspjöll sem metin voru á fimm dollara eða 603 krónur. Í öðru tilfelli var eins árs gamalt barn tekið af foreldri sínu eftir að embættismaður gagnrýndi föður þess fyrir að láta það sofa í notaðri bleyju.

Samtökin segja að tveggja ára stúlkubarn frá Gvatemala hafi verið tekið af föður sínum eftir læknisrannsókn þar sem kom fram að hún var með háan hita, útbrot og næringarskort. Þau komu frá svæði í landinu þar sem vannæring er gríðarlegt vandamál og hann sakaður um vanrækslu af þeim sökum.

Flestir foreldrar sem urðu viðskila við börn sín vissu ekki hvar þau voru niður komin eða hvernig líðan þeirra væri í margar vikur, margir þeirra vissu ekki hvers vegna þau voru tekin af þeim. Um þriðjungur þeirra 911 barna sem tekin voru af foreldrum sínum á þessu tímabili voru færð í umsjá kaþólskra hjálparsamtaka og aðeins þrjú verið færð aftur í hendur foreldra sinna.

Að sögn ACLU voru 185 börn færð í umsjá ábyrgðarmanna vikum eða jafn vel mánuðum eftir að þau voru tekin af foreldrum sínum. 33 börn voru send aftur til heimalands síns.