Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

90 prósent Miðflokksmanna með áhyggjur af 3OP

23.10.2019 - 13:52
Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir
Helmingur landsmanna hefur litlar áhyggjur af þriðja orkupakkanum en þriðjungur hefur frekar eða mjög miklar áhyggjur, samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR. Stuðningsmenn Miðflokksins skera sig úr þar sem 90 prósent þeirra hafa áhyggjur af þriðja orkupakkanum. Andstæðingar ríkisstjórnarinnar eru þrefalt líklegri en stuðningsmenn hennar til að hafa áhyggjur af þriðja orkupakkanum. Andstæðingar inngöngu í ESB eru fimm sinnum líklegri en stuðningsmenn aðildar til að hafa áhyggjur af orkupakkanum.

Þetta kemur fram í nýlegri skoðanakönnun MMR sem birt var í dag. 

22 prósent aðspurðra hafa mjög miklar áhyggjur af þriðja orkupakkanum og tólf prósent frekar miklar. 33 prósent hafa mjög litlar áhyggjur af þriðja orkupakkanum og sautján prósent frekar litlar. Sextán prósent svara bæði/og. 

Átján prósent stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar lýsa áhyggjum af þriðja orkupakkanum en 64 prósent þess hóps segjast frekar eða mjög áhyggjulítil.

54 prósent andstæðinga ESB-inngöngu lýsa frekar eða miklum áhyggjum af orkupakkanum en 29 prósent frekar eða mjög litlum áhyggjum. Þessu er öfugt farið hjá stuðningsmönnum aðildar. 79 prósent þeirra hafa frekar eða mjög litlar áhyggjur en ellefu prósent hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur. 

Tólf prósent stuðningsmanna Pírata, Samfylkinga og Viðreisnar hafa áhyggjur af þriðja orkupakkanum, 23 prósent stuðningsmanna stjórnarflokkanna og 90 prósent þeirra sem styðja Miðflokkinn. Aðeins fjögur prósent Miðflokksmanna hafa litlar áhyggjur af þriðja orkupakkanum. 60 prósent stjórnarliða lýsa áhyggjuleysi og 77 prósent þeirra sem myndu kjósa Samfylkinguna, Pírata eða Viðreisn.

Karlar hafa meiri áhyggjur af þriðja orkupakkanum en konur, eldra fólk frekar en það yngra og landsbyggðarfólk hefur meiri áhyggjur af þriðja orkupakkanum en íbúar höfuðborgarsvæðisins.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV