Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

9 karlar — 1 kona í Hæstarétti

24.09.2015 - 11:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lagaprófessor segir óásættanlegt að hlutfall kvenna í Hæstarétti sé tíu prósent. Slíkt hlutfall myndi ekki líðast á Alþingi. Fimm karlar töldu Karl Axelsson hæfastan í stöðu dómara. Innanríkisráðuneytið benti Hæstarétti á að skipanin væri þvert á Jafnréttislög. Kastljós birtir umsögn dómnefndar.
EIns og fram kom í Kastljósi í gær telur dómnefnd Karl Axelsson hæstaréttarlögmann hæfari til setu í Hæstarétti en Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldi Einarsdóttur, þótt menntun þeirra og reynsla af dómarastörfum sé mun meiri. Reynsla Karls í stjórnsýslu- og lögmannsstörfum var þó meiri og vó þyngra í mati dómnefndar. Hægt er að nálgast umsögn dómnefndar hér.
 
Samkvæmt breytingu sem gerð var á skipan dómara árið 2010 ber ráðherra að skipa í dómaraembætti umsækjanda sem dómnefndin hefur talið hæfastan meðal þeirra sem sóttu um embættið, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu má ráðherra þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu hans um að skipa í embættið annan umsækjanda sem fullnægir lágmarksskilyrðum til að gegna því. Því verður að teljast ólíklegt annað en að Karl Axelsson verði dómari við Hæstarétt.
Embætti hæstaréttardómara var auglýst laust til umsóknar í júlí síðastliðnum. Þrír umsækjendur voru um stöðuna og þóttu allir hæfir til að gegna embættinu. Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari og settur dómari við Hæstarétt, Davíð Þór Björgvinsson, doktor í lögum og dómari við Mannréttindadómstól Evrópu auk Karls Axelssonar hæstaréttarlögmanns.
 
Karlar völdu Karl
 
Dómnefndin sem mat hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara sem skipa á í frá mánaðamótum var skipuð fimm karlmönnum en engri konu. Nefndina skipuðu þeir Gunnlaugur Claessen, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem er formaður nefndarinnar, Óskar Sigurðsson lögmaður, Stefán Már Stefánsson prófessor emeritus, Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, og Símon Sigvaldason héraðsdómari. Hæstiréttur tilnefnir tvo fulltrúa í nefndina og dómstólaráð og Lögmannafélag Íslands einn hvort um sig. Fulltrúarnir eru skipaðir til fimm ára og rennur skipunartími eins þeirra út á hverju ári. 
 
Jafnréttislög á suma?

Samkvæmt 15. grein jafnréttislaga þar sem fjallað er um þátttöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera segir að við skipanir í þau skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40 prósent þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þar segir ennfremur að tilnefna skuli bæði karl og konu. Þó fá þeir sem tilnefna fulltrúa heimild til að víkja frá þessu skilyrði þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki sé mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Þá ber þeim sem tilnefnir að skýra ástæður þess að horfið er frá skilyrðinu. Þeim sem skipar í nefndir, ráð og stjórnir er einnig heimilt að víkja frá þessu skilyrði ef undanþáguheimildin á við. Ekkert liggur fyrir um hvers vegna Hæstiréttur, Alþingi, dómstólaráð og lögmannafélagið, telja sig undanþegin þessum lögum. Í því samhengi er rétt að benda á að í gildi eru lög sem leggja þær skyldur á herðar einkafyrirtækja að stjórnir þeirra skuli skipaðar konum og körlum til jafns.

9 karlar - 1 kona

Ragnhildur Helgadóttir, forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, gerir þá staðreynd að mjög halli á konur í hópi dómara við Hæstarétt Íslands að umtalsefni í grein sem birtast mun í tímariti HR í október. Í greininni segir Ragnhildur athyglisvert að í umræðum um árangur í jafnréttisbaráttu kvenna, í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna í ár, skuli hlutfall kvenna í Hæstarétti vera eins lágt og raun ber vitni. 

„Það er skrýtið að við sem þjóð vinnum markvisst að því að auka hlut kvenna á Alþingi en látum okkur engu skipta afar lágt hlutfall kvenna í Hæstarétti.“

„Ef litið er til íslenskra dómstóla og þátttöku kvenna þar, þá er stór hluti héraðsdómara konur eða 20 af 43. Af tíu skipuðum hæstaréttardómurum er hins vegar aðeins ein kona. Þá situr nú ein kona tímabundið í Hæstarétti vegna leyfis skipaðs dómara.  Staðan er m.ö.o. sú, að eftir því hvernig skipað verður í þá stöðu sem nú er laus, verða 10 eða 20% dómara við æðsta dómstól landsins konur. Er það ásættanlegt hlutfall 100 árum eftir að konur hófu formlega þátttöku í stjórn ríkisins,“ segir Ragnhildur í grein sinni. Síðan greinin var skrifuð hefur dómnefnd mælt með skipan Karls Axelssonar. Hlutfall kvenna í hópi Hæstaréttardómara verður því 10% samkvæmt því. Leitun sé að svo lélegu hlutfalli í valda- og stjórnunarstöðum á Íslandi.

Í grein sinni segir Ragnhildur að nú sé það almennt álit flestra að mikilvægt sé að á Alþingi sitji fólk með misjafna reynslu, á ýmsum aldri og af báðum kynjum. Kyn sé enda meðal þeirra þátta sem móti lífsreynslu fólks.

Það eru semsé mörg og misjöfn rök fyrir fjölbreytni á þingi: Margir telja mikilvægt að hafa konur á þingi vegna þess að þær taki aðrar ákvarðanir en karlmenn eða taki ákvarðanir með öðrum hætti. Langflestir telja jafnframt mikilvægt að á þingi sitji bæði konur og karlmenn með mismunandi skoðanir því það skipti máli að allir geti speglað sig í þinginu og séð fulltrúa sína þar auk þess sem blandaður hópur á þingi hafi táknrænt gildi,“ segir Ragnhildur í grein sinni.

Spurning um traust

Annað virðist þó eiga við um dómstóla, og þá ekki síst æðsta dómstól þjóðarinnar. Jafnvel þó hlutverk hans sé ólíkt. Og jafnvel þó dómarar eigi fyrst og síðast að dæma að lögum, og margir telji að ein rétt niðurstaða sé til í hverju máli, sé reynsla þess sem dæmir líka eitthvað sem hafi áhrif á niðurstöðu einstaklingsins. „Til stuðnings því, að persónulegir eiginleikar dómara skipti máli í dómsstörfum má auðvitað nefna að það er gerð krafa um bæði lágmarksaldur og starfsreynslu til að vera skipaður dómari. Þetta er í sjálfu sér áhugavert viðfangsefni. Niðurstaðan um það hvort það sé ásættanlegt hve lágt hlutfall af dómurum í Hæstarétti eru konur veltur hins vegar ekki, frekar en í tilviki Alþingis, á  því hvort við teljum að konur og karlmenn taki ólíkar ákvarðanir,“ segir Ragnhildur sem segir að í þeirri sjálfsögðu kröfu að í Hæstarétti skuli vera sómasamlegt hlutfall karla og kvenna, felsti ekki nein krafa um að slakað sé á hæfnis- eða gæðakröfum.

„Þvert á móti má halda því fram að það sé einmitt til þess að búa til betri Hæstarétt, sem skilar betri niðurstöðum og nýtur meira trausts, að horft sé til persónulegra eiginleika eins og kyns, rétt eins og þess hvort fólk hefur t.a.m. samið fleiri eða færri lagafrumvörp,“ segir í grein Ragnhildar Helgadóttur forseta lagadeildar Háskólans í Reykjavík.

 Uppfært klukkan 11:57

Bentu Hæstarétti á lögin

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, aðstoðarmann Ólafar Nordal, Innanríkisráðherra, sagði í samtali við Kastljós í morgun að það væri alveg skýrt að ákvæði Jafnréttislaga ættu við um Hæstarétt eins og alla aðra. Hæstarétti hefði verið bent á ákvæði laga sem segði að þegar þeir sem tilnefna eigi tvo fulltrúa í nefnd, eins og Hæstiréttur geri í dómnefndina, sé það skýrt að tilnefna eigi karl og konu. Það hafi verið gert með bréfi ráðuneytisins til réttarins, eins og venja sé í slíkum tilfellum. Ekki liggi fyrir skýringar á því hvers vegna ekki hafi verið farið eftir því.