Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

87 börn í Kvennaathvarfinu

05.03.2013 - 09:40
Mynd með færslu
 Mynd:
200 gestir, konur og börn, dvöldu kvennaathvarfinu í Reykjavík á síðasta ári allt frá einum degi upp í í 213 daga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kvennaathvarfinu. Athygli vekur mikill fjöldi barna, en þau voru 87 og dvöldu í athvarfinu í að meðaltali 24 daga.

Íbúafjöldi fór upp í 23 þegar mest lét en að meðaltali dvöldu 6 konur og 6 börn í athvarfinu á degi hverjum.

Kvennaathvarfið segir að sú ánægjulega breyting hafi orðið í fyrra að börn í athvarfinu fái nú þjónustu á vegum tilraunaverkefnis í samvinnu Barnaverndarstofu og lögreglu og barnaverndar á höfuðborgarsvæðinu.

Slæmu fréttirnar frá árinu séu hins vegar að óvenju hátt hlutfall kvenna hafi farið aftur til ofbeldsmannsins en reikna megi með að ekki færri en 40% dvalarkvenna hafi farið heim í óbreyttar aðstæður. Að sama skapi fóru fáar konur, eða 6% dvalarkvenna heim í breyttar aðstæður þar sem ofbeldismaðurinn er fluttur að heiman eða að öðru leyti hægt að reikna með að ástandið á heimilinu hafi batnað.