Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

82% vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýri

22.09.2013 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd:
73 prósent Reykvíkinga vilja hafa Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýri. Heildarstuðningur þjóðarinnar við flugvöllinn er 82 prósent. Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallup

Kannaður var hugur landsmanna til þess hvort Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera áfram þar sem hann er eða fara eitthvað annað. Niðurstaðan er afgerandi.

82 prósent þjóðarinnar vilja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Gallup kannaði þetta síðast fyrir átta árum en þá vildu 55 prósent þjóðarinnar hafa hann áfram. Stuðningurinn við óbreytta staðsetningu hefur því aukist mikið á þessum átta árum. 

Stuðningurinn er þó misjafn innan einstakra hópa. Sjötíu og þrjú prósent íbúa Reykjavíkur vilja hafa hann áfram en ríflega níutíu prósent íbúa á landsbyggðinni. Konur vilja frekar hafa flugvöllinn áfram á sama stað en karla. Þá er einnig töluverður munur eftir menntun. 90 prósent þeirra sem eru aðeins með grunnskólapróf vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýri, en 70 prósent þeirra sem eru með háskólapróf. 

Og stjórnmálaskoðanir hafa einnig áhrif. Vel yfir 90 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í þingkosningunum vilja hafa hann áfram, á meðan aðeins um 60 prósent kjósenda Samfylkingarinnar og Pírata eru sömu skoðunar.

Þeir sem vildu að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni voru auk þess spurðir hvar flugvöllurinn ætti þá að vera. Frá síðustu könnun fyrir átta árum hefur stuðningurinn aukist við að flytja hann til Keflavíkur - 65 prósent þeirra vildu það nú en 54 prósent fyrir átta árum. Fimmtán prósent nefndu Hólmsheiði og annað eins Löngusker.