Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

81% vilja afsögn Sigmundar Davíðs

05.04.2016 - 21:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kastljós
Mikill meirihluti landsmanna telur að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eigi að segja af sér embætti forsætisráðherra. Þetta er niðurstaða úr nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

Könnunin var gerð í dag og í gær og spurt var: telur þú að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eigi að segja af sér sem forsætisráðherra eða telur þú að hann eigi að sitja áfram sem forsætisráðherra? Niðurstaðan er sú að áttatíu og eitt prósent telja að Sigmundur Davíð eigi að segja af sér en nítján prósent telja að hann eigi ekki að segja af sér.
Fleiri konur en karlar vilja að hann segi af sér, fleiri höfuðborgarbúar en íbúar landsbyggðarinnar. 14% stuðningsmanna Framsóknarflokksins vill að Sigmundur Davíð segi af sér en ríflega helmingur stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins eða 56%. Nær allir stuðningsmenn stjórnarandstöðuflokkanna vilja að Sigmundur Davíð segi af sér. Meira en þriðjungur þeirra sem lýsa stuðningi við ríkisstjórnina, 36%, vilja að hann segi af sér.
Sem kunnugt er lagði Sigmundur Davíð sjálfur til í dag að hann víki sæti sem forsætisráðherra í stað Sigurðar Inga Jóhannssonar, varaformanns Framsóknarflokksins.

Könnunin var gerð dagana 4.-5. apríl. 699 svöruðu könnuninni, þar af tóku 91% afstöðu til spurningarinnar eða 636 svarendur.

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV