800 missa þjónustu Hugarafls

08.04.2018 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtökin Hugarafl sjá fram á að missa húsnæðið á þessu ári og erfiðleika við að reka starfsemi félagsins en það veitir þeim aðstoð sem glíma við geðræna erfiðleika. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur ákveðið að slíta samstarfi við samtökin og ætla að veita þjónustu með sérstökum geðteymum. 800 skjólstæðingar Hugarafls missa þjónustu í gegnum sameiginlegt teymi Hugarafls og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Samtökin Hugarafl og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafa haft samstarf um samfélagslega geðþjónustu þar sem teymi fagfólks og notenda sinnir batahvetjandi stuðningi við einstaklinga og fjölskyldur, eins og segir á vef Hugarafls. Sálfræðingar og aðrir sérfræðingar sem starfa hjá Heilsugæslunni hafa komið í húsakynni Hugarafls og veitt viðtöl. Nú hefur Heilsugæslan ákveðið að slíta þessu samstarfi. Hugarafl hefur boðað til þögulla mótmæla við Velferðarráðuneytið á þriðjudag. Sigurborg Sveinsdóttir, í stjórn Hugarafls, segir að nú sé verið að rjúfa 15 ára farsælt samtarf.

„Við höfum náttúrulega ítrekað farið til bæði félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra til að fá svör en ekki fengið nein svör, ekki fengið neinn rökstuðning. Með því að slíta svona samstarfi er verið að fara verulega aftur til fortíðar að okkar mati. Heilsugæslan hefur einnig hýst Hugarafl, þannig að við erum í óvissu með húsnæði og rekstrargrundvöll,“ segir Sigurborg. 

Hversu stór hópur er þetta sem hefur nýtt sér þessa þjónustu þar sem þessi samvinna er í gangi? „Þetta eru um 800 manns á ári sem eru að missa þjónustu og tugir að missa sinn endurhæfingalífeyri í kjölfarið,“ segir Sigurborg. 

Fréttastofa reyndi að ná tali af heilbrigðisráðherra fyrir hádegisfréttir en án árangurs. Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri lækninga á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að fyrir rúmi ári hafi verið skipaður vinnuhópur með fulltrúum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, landlæknisembættisins, velferðarráðuneytis, geðdeildar Landspítalans og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Niðurstaðan hafi verið áætlun í geðheilbrigðismálum og að slíta samstarfi við félagasamtök. 

„Við erum að byggja upp öðru vísi geðheilbrigðisþjónustu. Við erum að koma af stað geðheilbrigðisteymi sem verður sett upp fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Það verður geðteymi Austur, fyrir austursvæðið, sem er það geðteymi sem hefur verið kallað geðteymi Breiðholts. Síðan erum við að setja upp geðteymi Vestur, sem er fyrir vestursvæði höfuðborgarinnar. Síðan geðteymi Suður sem verður sett í gang á næsta ári,“ segir Óskar. 

Hann segir að skjólstæðingar Hugarafls eigi að fá þjónustu hjá geðteymunum. „Það er að sjálfsögðu öðru vísi þjónusta. Við verðum sjálf ekki með þessa iðjuþjálfun. Það eru margs konar verkefni sem eru á vegum Hugarafls í Borgartúni, sem hefur verið mjög góð starfsemi. Við leggjum mikla áherslu á að þessu verði haldið áfram en það er þá mögulega í gegnum eitthvað annað form en í gegnum okkur. Það er þá velferðarráðuneytið sem þarf að taka afstöðu til þess, hvað þeir gera með það,“ segir Óskar. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi