80% þingkvenna orðið fyrir andlegu ofbeldi

18.10.2019 - 06:16
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Um 80 prósent íslenskra þingkvenna verða fyrir kynbundnu, andlegu ofbeldi og 28 prósent þeirra hafa sætt kynferðislegu ofbeldi. Þetta er á meðal niðurstaðna rannsóknar sem gerð var meðal sitjandi þingkvenna og kvenna sem nýlega hafa látið af þingmennsku.

Fréttablaðið greinir frá þessu. Fjallað er um rannsóknina og niðurstöður hennar í nýrri bók eftir dr. Hauk Arnþórsson, sem kemur út í dag. Rannsóknin var lögð fyrir 33 þáverandi og fyrrverandi þingkonur í maí á þessu ári og bárust svör frá 25 þeirra. Um fjórðungur þingkvennanna, 24 prósent, sagðist hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og tæplega 21 prósent fyrir efnahagslegu ofbeldi, en í því felst meðal annars að konum er neitað um starfskjör eða starfsaðstöðu sem þær eiga þó rétt á, og að eigur þeirra séu skemmdar.

Verra hér en á meginlandi Evrópu

Gerður er samanburður við ástandið á öðrum evrópskum þjóðþingum, þar sem svipuð könnun var gerð í fyrra. Sá samanburður leiðir í ljós að heldur hærra hlutfall evrópskra þingkvenna hefur sætt andlegu ofbeldi, eða 85,2 prósent, en hlutfallið er lægra meðal evrópsku þingkvennanna í hinum flokkunum þremur. 24,7 prósent þeirra hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, 14,8 prósent fyrir líkamlegu ofbeldi og 13,5 prósent fyrir efnahagslegu ofbeldi.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi