Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

80 prósent ánægð með störf Guðna

17.01.2020 - 06:47
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Um 80 prósent landsmanna eru ánægð með störf Guðna Th. Jóhannessonar forseta, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Zenter rannsókna fyrir Fréttablaðið. Sex og hálft prósent segjast óánægð með störf hans.

Mjög mismunandi er eftir stjórnmálaafstöðu fólks hversu ánægt fólk er með störf forsetans. Mikill meirihluti stuðningsmanna allra flokka nema eins eru þó ánægð með hann. Mest er ánægjan meðal fylgismanna Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, 95 til 97 prósent. 85 til 86 prósent Framsóknarmanna, Sósíalista og Pírata lýsa ánægju með störf forsetans og 71 prósent Sjálfstæðismanna. 

Það er aðeins meðal stuðningsmanna Miðflokksins sem lítið er um ánægju með störf forsetans. 34 prósent þeirra segjast ánægð með störf forsetans en 37 prósent óánægð. 

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að niðurstöðurnar eru fengnar úr netkönnun sem gerð var 10. til 15. janúar og var svarhlutfallið úr 2.710 manna úrtaki 52 prósent. Gögn voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.

Guðni var kosinn forseti í júní 2016 og tók við embætti 1. ágúst sama ár. Hann tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann gæfi kost á sér til endurkjörs.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV