Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

8. þáttur - Afmælissúkkulaðiterta

02.05.2014 - 15:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Þessi uppskrift er eggjalaus og sómir sér vel í öllum afmælum!

Afmælissúkkulaðiterta

 180 g pálmasykur*

500 ml lífræn grísk jógúrt eða venjuleg jógúrt (einnig má nota 1 dós aukefnalausa kókosmjólk (250 g um það bil) og volgt vatn ef þarf meiri vökva og þá getið þið minnkað smjörmagnið um 30 g)

½ tsk. vanilluduft eða 1 tsk. vanilludropar
Ögn af salti (má sleppa)
300 g  fínmalað spelt**

60 g  lífrænt kakóduft - (9 msk)

1 msk. vínsteinslyftuduft***

150 g brætt smjör

  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Hrærið vel saman sætu og jógúrt.
  3. Bætið hinu öllu saman við, bræddu smjöri síðast, og hrærið saman.
  4. Bakið í tveimur 22-24 cm kökuformum í 18-20 mínútur.
  5. Ef þið stingið prjón í kökuna og hann kemur hreinn upp úr, er hún bökuð í gegn.

- Ég reyni að ofbaka ekki kökur því þá verða þær þurrar og ekki eins spennandi að mér finnst. Ég vil hafa þær frekar minna bakaðar en meira.

 

Kremið (athugið á einn kökubotn, tvöfaldið ef þið ætlið að setja á báða)

 70 g brætt smjör

70 g lífrænt hlynsýróp

4 vænar msk. lífrænt kakó

½ tsk. lífrænt vanilluduft

  1. Bræðið smjörið við vægan hita.
  2. Blandið öllu saman í skál og hrærið vel.
  3. Kælið ögn (ég set skálina inn í ísskáp í smá stund því þá þykknar kremið) og smyrjið svo á kökuna ykkar!

- Þið getið notað kakósmjör, kókosolíu eða kókosrjóma í staðinn fyrir smjörið.

- Einnig má nota lífrænt agavesýróp eða hunang í staðinn fyrir eða á móti hlynsýrópinu sem og ögn af flórsykri ef þið viljið (hægt að kaupa lífrænan).

- Sumir nota avókadósúkkulaðibúðinginn ofan á kökur!

* Pálmasykur/Kókospálmasykur: er sæta unnin úr blómum pálmatrjáa. Safanum er safnað saman og hann soðinn í karamellu. Þá er hann þurrkaður og mulinn í kókospálmasykur. Kókospálmasykur inniheldur ýmis vítamín og steinefni og er sagður vera með helmingi lægri sykurstuðul en hvítur sykur. Ég nota hann í staðinn fyrir sykur þegar ég er að baka. Hann er bragðgóður, hefur ögn sætan karamellukeim. Hann má nota í sömu hlutföllum og hvítan sykur í uppskriftir. Hann er til í heilsuhillum margra stórmarkaða og í öllum heilsubúðum.

** Spelt: Er hveititegund sem fæst í flestum stórmörkuðum sem og heilsubúðum. Spelt er hreint ekki nýtt af nálinni. Spelt inniheldur meira prótein en hveiti en meira glúten líka. Spelt er vatnsleysanlegt og því fer það betur í maga hjá mörgum sem eru viðkvæmir í maga.

*** Vínsteinslyftiduft: Er lyftiduft sem má nota í allan bakstur eins og annað lyftiduft. Vínsteinslyftiduft er unnið úr svokölluðum vínsteini sem er hvíta duftið/saltið sem verður eftir innan á víntunnum þegar vínberjasafinn hefur gerjast í þeim. Svo er því blandað við maíssterkju og natrium carbonat til að gefa góða lyftiduftsblöndu. Þumalfingursreglan er 1 tsk vínsteinslyftiduft fyrir hver 100g af mjöli.