Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

8 mánuðir, engir samningar

03.12.2019 - 09:45
Mynd: Ruv / Ruv
Þó að liðnir séu átta mánuðir frá því að samningar opinberra starfsmanna losnuðu sér ekki fyrir endann á samningaviðræðunum. Ekki er ólíklegt að viðræður standi fram yfir áramót. Samningar sjómanna er lausir og um áramót verða flugvirkjar með lausa samninga.

Gagnrýna seinaganginn

Það eru um 150 kjarasamningar lausir og hafa verið lengi. Í dag eru liðnir átta mánuðir frá því að samningar opinberra starfsmanna losnuðu. Reyndar er ástandið verra hjá öðrum félögum t.d. flugmönnum. Þeirra samningar losnuðu um síðustu áramót. Langstærstur hluti félaganna sem eru með lausa samninga tengjast opinberum starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga. Það kemur ekki á óvart að mörgum samningamönnum finnst að það gangi hægt. Opinberu stéttarfélögin kenna ríkinu um seinaganginn. Reyndar var tekið frí frá viðræðum í sumar enda erfitt að standa í kjaraviðræðum þegar sumarfrí eru í algleymingi. Fjögur félög innan BHM hafa þegar samið og búast má við því að aðrir samningar verði í einhverjum takti við þá samninga. Hins vegar er alls ekki ljóst hvenær kjarasamningum við aðra opinbera starfsmenn lýkur. Sumir eru byrjaðir að tala um að það gæti dregist yfir áramót. Þó að þessir hópar semji er ekki þar með sagt að samningamenn séu komnir í frí. Samningar sjómanna losnuðu nú um mánaðamótin og samningar flugvirkja eru lausir um áramót.

Stytting vinnuvikunnar

Ef við beinum athyglinni að opinberum starfsmönnum, sem eru meðal annars að semja um styttingu vinnuvikunnar, virðist svo sem samningar um styttingu vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki séu að takast. BSRB-félögin hafa fyrir allnokkru komist að samkomulagi um hvernig staðið verður að styttingunni í dagvinnu. BHM-félögin sem sömdu um daginn sömdu um styttingu vinnuviku launamanna í dagvinnu en  biðu með vaktavinnufólkið. Það helgast meðal annars af því mjög fáir félagsmenn standa vaktir. Samið var um að vinnuvikan gæti styst úr 40 stundum í 36. Hins vegar er það undir hverjum og einum vinnustað eða stofnun komið hvernig staðið verður að styttingunni.

11 félagahópurinn við að semja

Innan BHM eru 17 félög sem eiga eftir að semja við ríki og sveitarfélög. Ellefu þeirra halda hópinn en hin fylgjast með framvindunni. Ellefu félaga hópurinn hefur fram að þessu alfarið hafnað því að samið verði um styttinguna í skiptum fyrir matar- og eða kaffitíma. Hins vegar virðist vera rofa til því hópurinn er langt kominn með að semja um styttinguna fyrir dagvinnufólkið. Ekki fæst uppgefið í hverju samkomulagið felst en gera má ráð fyrir að það sé að einhverju leyti í sama dúr og félögin fjögur sem lokið hafa samningum sömdu um. Verið er að kynna niðurstöðuna í félögunum 11.

Vaktavinna tekin fyrir

Það hefur verið stefna ríkisins að ljúka samningum um styttinguna í dagvinnunni. Næst verði ráðist í að ná samningum við vaktavinnufólkið. Hópur, sem í sátu fulltrúar stéttarfélaganna og ríkisins, gerði skýrslu um  vaktavinnuna fyrir allnokkru. Nú er verið að endurvekja þennan hóp sem á væntanlega að skila tillögum á næstunni.

Í skýrslu sem hópurinn vann kom fram að það eru einkum konur sem vinna vaktavinnu. Það kemur ekki á óvart. Miðað við stöðugildi  meðal vaktavinnufólks eru 76% konur og 24%, eða fjórðungur, karlar. Hlutfall vaktavinnu á Landspítalanum er 53%. Í ljósi stærðar Landspítalans eru langflestir sem vinna vaktavinnu þar, eða um 3.700. 

Slæm áhrif á heilsuna

Eftir því sem Spegillinn kemst næst stendur til að kalla vaktavinnuhópinn aftur til starfa á næstunni, nú þegar sér fyrir endann á  samningum um breytingar á vinnuvikunni hjá dagvinnufólki. Hópurinn á væntanlega að koma með mótaðar tillögur um vinnuna. Flestir eru sammála um að breytinga sé þörf á vaktavinnufyrirkomulaginu. Það feli í sér lengri virkan vinnutíma, hafi slæm áhrif á heilsuna, erfitt sé að samræma vinnu og einkalíf og veikindatíðni er hærri svo eitthvað sé nefnt.

Vaktavinnurhópurinn sem lagði fram hugmyndir um breytingar í september setti sér nokkur markmið. Efst á lista þar var að heildarvinnuskylda dag- og vaktavinnufólks á ári fyrir fullt starf verði sambærileg. Varpað er fram ýmsum hugmyndum um breytingar. Að vaktavinnufólk vinni sér inn frítíma, ávinnslan verði mest á næturvöktum og dregið verði úr yfirvinnu. Of flókið er að fara nánar út í tillögurnar eða hugmyndirnar. Hins vegar á eftir að vinna þær og útfæra. Hvort það tekst fyrir áramót er allsendis óvíst. Því það á líka eftir að semja um launaliðinn. Það á líka eftir að semja um jöfnun launa milli markaða og ýmislegt fleira.