Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

70 handtökur í aðgerðum gegn barnamansali

09.08.2019 - 12:20
Mynd með færslu
Höfuðstöðvar Europol í Haag í Hollandi. Mynd: EPA - ANP
Europol handtók 70 manns í viðamiklum aðgerðum gegn barnamansali fyrr í sumar. Í aðgerðunum fundust yfir tvö hundruð þolendur mansals, þar af 53 börn. Lögregla í sextán Evrópusambandsríkjum, auk Íslands og Sviss tók þátt í aðgerðunum.

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fólst þátttaka hennar í meiri áherslu á málaflokkinn í samstarfi við Europol. Enginn var handtekinn á vegum embættisins.

Í aðgerðum Europol var leitað í fjölda fyrirtækja, á heimilum, hótelum, rútu- og lestarstöðvum, í höfnum, flugvöllum og á landamærum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Europol.

Þrjátíu og fjórir voru handteknir fyrir barnamansal í löndunum átján og þrjátíu og sex fyrir annars konar glæpi svo sem dreifingu á efni sem sýnir börn á kynferðislegan hátt. 

Europol skráði hjá sér 206 mögulega þolendur mansals, þar af 53 börn. Lögreglan naut aðstoðar barnaverndaryfirvalda, sveitarfélaga, og frjálsra félagasamtaka við leit að mögulegum þolendum mansals.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir