Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

70 ár frá mannskæðu flugslysi

03.05.2013 - 21:19
Mynd með færslu
 Mynd:
70 ár eru í dag síðan bandarísk herflugvél fórst í nágrenni Grindavíkur og með henni yfirmaður bandaríska heraflans í Evrópu. Við minningarathöfn í dag voru sýndar gamlar fréttamyndir hersins frá slysinu.

Vorið 1943 var stríðið í Evrópu í algleymingi, Sovétmenn voru nýbúnir að vinna stórsigur á her Þjóðverja við Stalíngrad en enn var rúmt ár í að bandamenn næðu landi í Normandy. Frank Maxwell Andrews hafði nýlega tekið við starfi æðsta hershöfðingja Bandaríkjahers í Evrópu. Hann hafði verið kallaður heim til Washington og fékk far vestur með Robert „Shine“ Shannon flugstjóra, á B-24 Liberator sprengjuflugvélinni Hot Stuff. Lagt var upp frá Englandi með 15 manns innan borðs. Ferðinni var fyrst heitið til Íslands.

Þegar vélin nálgaðist Ísland lenti hún óvænt í lélegu skyggni, áköfum éljum, skýjabökkum og rigningu. Flugstjórinn reyndi nokkrum sinnum að lenda í Kaldaðarnesi í Flóa en ákvað að hverfa frá og lenda í Keflavík. Þar var skyggni ekkert svo hann sneri aftur austur. En vélin skall á Fagradalsfjalli og sundraðist. 14 fórust. Sá eini sem lifði af var George Eisel liðþjálfi. Hann slapp með minniháttar áverka en sat fastur í stélinu.

Eldur braust út og George hélt að hann myndi brenna lifandi eða farast þegar skotfærin um borð myndu springa. Úrhellisrigning slökkti eldinn og George var bjargað um sólarhring eftir að vélin fórst. 

Nokkrum dögum síðar voru mennirnir 14 jarðsungnir í Reykjavík. Kenneth Jeffers loftskeytamaður var kaþólskrar trúar og fór útför hans fram frá Landakotskirkju. Meðal viðstaddra voru Vilhjálmur Þór utanríkisráðherra og Björn Ólafsson fjármálaráðherra. Sama morgun voru hinir 13 sem fórust jarðsungnir frá dómkirkjunni. Þarna var margt fyrirmenna og nokkur mannfjöldi fylgdist með frá Austurvelli. Mennirnir voru svo bornir til grafar í grafreit hermanna í Fossvogskirkjugarði. Líkin voru síðar grafin upp og flutt til Bandaríkjanna. Andrews hershöfðingi hvílir nú í Arlington-kirkjugarðinum í nágrenni Washington.