Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

7 milljarðar í betra umferðarflæði í borginni

30.09.2019 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Með því að bæta umferðarljósastýringar er hægt að bæta flæði umferðar um borgina og tryggja betur öryggi, segir Þorsteinn Rúnar Hermannsson samgöngustjóri Reykjavíkurborgar. Samkvæmt samgöngusáttmálanum verða 7,2 milljarðar króna settir í verkefnið. 

Allir aðilar samgöngusáttmálans voru sammála um að setja aukna umferðarstýringu í forgang. Það verði gert með því að nýta tæknilausnir og bæta umferðarljósakerfi á höfuðborgarsvæðinu. Í það verkefni fara 7,2 milljarðar króna - og segir Þorsteinn Rúnar Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar að inni í þeirri upphæð séu fjölmörg minni verkefni. 

„Þarna eru líka fjármunir í öryggisaðgerðir og aukið umferðarflæði. Þarna þarna er verið að sameina nokkuð marga liði í þessa 7,2 milljarða. Það er hægt að sjá dæmi eins og núna, framkvæmd sem er í gangi er Bústaðavegur - Kringlumýrarbraut. Þar er verið að bæta rampa og bæta umferðarflæði. Kannski það sem hefur verið gert fyrir þessa fjármuni hingað til í öryggismálum er uppsetning vegriða til dæmis á miðeyjum til að aðskilja akstursstefnur.“

Það eru umferðarljós á um 200 stöðum á höfuðborgarsvæðinu og er rúmlega helmingurinn tengdur við miðlæga stýritölvu umferðarljósa sem er kölluð MSU. Þar er notað kerfi sem tekur tillit til umferðar og velur þau plön sem ná bestum árangri fyrir viðkomandi svæði hverju sinni.

Þorsteinn segir að til viðbótar komi svokölluð motion-stýring. „Þetta er svona staðbundin rauntímastýring og umferðin hefur bein áhrif á lengd allra grænna tíma og rauðra tíma eftir því hvað það er mikill umferðarþungi á aðliggjandi götum og hún tekur í raun og veru nokkur gatnamót í einu og metur þá fyrir gatnamótaröðina hvaða stýriprógram á að nota hverju sinni og getur þá uppfært á 15 mínútna fresti bestu stýringuna.“

Áætlanir gera ráð fyrir að á árinu 2022 verði öll umferðarljós á höfuðborgarsvæðinu tengd MSU. Hann segir að þetta sé besta lausnin sem sé í boði í dag. Stöðugt sé þó verið að leita leiða til að bæta samgöngur í borginni. „ En það sem stendur til hjá okkur að gera er að fara í úttekt á heildarkerfinu, fá erlenda sérfræðinga til að fara yfir allan búnað og reksturinn og stýriprógröm og allt annað og ráðleggja okkur hvað við getum gert betur.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV