69% vilja Bjarna burt, Píratar með metfylgi

Mynd með færslu
69% þeirra sem afstöðu taka í skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 vilja að Bjarni Benediktsson segi af sér. 63% vilja að Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, geri það einnig. Mynd: RÚV
Mikill meirihluti þeirra sem afstöðu taka í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 vill að þau Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ólöf Nordal innanríkisráðherra segi af sér. Sama könnun sýnir mesta fylgi sem Píratar hafa fengið í könnunum þessara miðla. 43% þeirra sem afstöðu tóku sögðust myndu kjósa Pírata, ef kosið yrði nú.

69% eru þeirrar skoðunar að Bjarna Benediktssyni beri að víkja úr stóli fjármálaráðherra og litlu færri, eða 63%, vilja að Ólöf segi af sér embætti innanríkisráðherra, samkvæmt þessari könnun. Könnun sem Þjóðarpúls Gallup gerði þessa sömu daga leiddi í ljós að 81% var þeirrar skoðunar að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætti að víkja.

Stjórnarflokkarnir tapa 11%

Sjálfstæðisflokkurinn missir 6 prósentustiga fylgi milli kannana en er eftir sem áður næst stærstur flokka, þrátt fyrir kröfuna um afsögn þeirra Bjarna og Ólafar, sem bæði tengjast aflandsfélögum sem lögfræðistofan Mossack Fonseca í Panama hafði milligöngu um að stofna. Samkvæmt könnuninni, sem gerð var á mánudag og þriðjudag, styðja 21,6% þeirra sem afstöðu tóku Sjálfstæðisflokkinn nú. Flokkurinn naut stuðnings 27,6% í síðustu könnun, sem gerð var fyrir tæpum mánuði, og 26,7% í kosningunum 2013.

Fylgi Framsóknar heldur áfram að minnka. Það mælist nú 7,9%, en mældist 12,8% fyrir mánuði og var 24,4% í kosningunum.

VG, Samfylking og Björt framtíð bæta aðeins við sig

Vinstri græn og Samfylking bæta aðeins við sig milli kannana en njóta hvergi nærri jafn góðs af óánægjunni með stjórnarflokkana og Píratar virðast gera.. Samfylking er enn aðeins fyrir neðan kjörfylgi, 10,2% segjast myndu kjósa hana nú, á móti 12,9% sem kusu hana 2013 og 8,2% sem sögðust styðja hana fyrir mánuði. 11,2% myndu setja krossinn við listabókstaf Vinstri grænna, væri gengið til kosninga nú, um hálfu prósentustigi fleiri en kusu flokkinn 2013 og hartnær þremur prósentustigum fleiri en þeir sem lýstu stuðningi við hann fyrir mánuði.

Björt framtíð hressist heldur milli kannana, 3,8% segjast styðja flokkinn í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, á móti 1,8% fyrir mánuði, en flokkurinn uppskar hartnær 8,3% í síðustu þingkosningum. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi