Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

6,6% launamunur kynja

04.05.2012 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Föst laun karla á á almennum markaði hér á landi eru sex komma sex prósent hærri en föst laun kvenna þegar búið er að taka tillit til helstu áhrifaþátta.

Þetta er niðurstaða greiningar Pricewaterhouse Coopers á launamun kynjanna. Fyrirtækið segir greininguna byggða á ítarlegum gögnum, sem fengin voru úr launakerfum liðlega sjötíu íslenskra fyrirtækja, yfir launagreiðslur í september 2011. Í sambærilegri greiningu árið 2006 voru laun karla tólf prósent hærri en laun kvenna. Að baki greiningunni í fyrra liggja upplýsingar um tekjur 14.000 launamanna.
 
Helstu áhrifaþættir launa eru meðal annars aldur, starfsaldur, menntun, starfshlutfall og heildarvinnustundir. Upplýsingarnar koma milliliðalaust úr launakerfum fyrirtækja. Greiningin byggir ekki á könnunum eða svörum frá launafólki sjálfu.

 Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB sagði í fréttum RÚV fyrr í vikunni að vísbendingar væru um að kynbundinn launamunur hjá ríkinu væri að aukast. hann væri allt að þrettán prósent.