Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

60 skjálftar í dag og landrisið orðið fimm sentímetrar

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Áframhaldandi jarðskjálftavirkni mælist í grennd við Grindavík, en dagurinn hefur verið nokkuð tíðindalítill. Frá miðnætti hafa mælst um 60 skjálftar á svæðinu, flestir undir 2 að stærð.

Skjálftavirknin fylgdi í kjölfar þess að skjálfti að stærð 3,3 varð um klukkan 19 í gærkvöld, 2 km norðaustur af Grindavík, en engar tilkynningar bárust Veðurstofunni í kjölfar hans. Frá 21. janúar hafa yfir 1100 skjálftar verið staðsettir á svæðinu, þar af um 700 yfir helgina.

Landrisið við fjallið Þorbjörn hefur haldið áfram og nýjustu mælingar sýna að landið hefur risið um fimm sentímetra frá 20. janúar. Þetta sýna GPS-mælingar og gervitunglamyndir. Með landrisi má búast við áframhaldandi jarðskjálftavirkni. Líklegasta skýring þessarar virkni er kvikuinnskot á 3-9 km dýpi rétt vestan við Þorbjörn. Líklegast er að virknin ljúki án eldsumbrota. 

Næsti fundur vísindaráðs almannavarna verður haldinn fimmtudaginn 6. febrúar þar sem farið verður yfir stöðuna við Grindavík.