Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

60 prósenta aukning í heitavatnsnotkun

06.12.2013 - 07:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Hitamælar hafa undanfarna daga sýnt mun lægri tölur en Íslendingar hafa átt að venjast síðustu ár, eða allt niður fyrir 20 stiga frost. Brunagaddurinn hefur orðið til þess að heitavatnsnotkun hefur aukist víða um land, en 90 prósent af vatninu er notað í kyndingu húsa.

Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur var heitavatnsnotkun síðdegis í gær 15.800 tonn á klukkustund. Væri vatnsstraumurinn umreiknaður í afl svari þetta til Kárahnúkavirkjunar og Búrfellsvirkjunar að auki, alls 930 megavött. Í síðustu viku var heitavatnsnotkunin um tíu þúsund tonn á klukkustund og er því aukningin 60 prósent á nokkrum dögum. 

Á Vestfjörðum er heita vatnið kynt með rafmagni. Afltoppur hitaveitukerfa Orkubús Vestfjarða fór upp í 15,7 megavött síðdegis í gær, samkvæmt upplýsingum þaðan. Í lok nóvember var hún 11,9 megavött. Aukningin nemur því tæpum 32 prósentum. Hjá Norðurorku fengust þær upplýsingar að notkun heitavatnsins sé um 44 prósentum meiri í dag en hún var fyrir viku. Rennslið í dag er 1.440 tonn á klukkustund en í liðinni viku var notkunin um 1.000 tonn á klukkustund. 

Slökkviliðið beinir þeim tilmælum til fólks að huga að lögnum í híbýlum sínum því í miklu frosti getur hæglega frosið í lögnum og þær sprungið. 

[email protected]