
Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur var heitavatnsnotkun síðdegis í gær 15.800 tonn á klukkustund. Væri vatnsstraumurinn umreiknaður í afl svari þetta til Kárahnúkavirkjunar og Búrfellsvirkjunar að auki, alls 930 megavött. Í síðustu viku var heitavatnsnotkunin um tíu þúsund tonn á klukkustund og er því aukningin 60 prósent á nokkrum dögum.
Á Vestfjörðum er heita vatnið kynt með rafmagni. Afltoppur hitaveitukerfa Orkubús Vestfjarða fór upp í 15,7 megavött síðdegis í gær, samkvæmt upplýsingum þaðan. Í lok nóvember var hún 11,9 megavött. Aukningin nemur því tæpum 32 prósentum. Hjá Norðurorku fengust þær upplýsingar að notkun heitavatnsins sé um 44 prósentum meiri í dag en hún var fyrir viku. Rennslið í dag er 1.440 tonn á klukkustund en í liðinni viku var notkunin um 1.000 tonn á klukkustund.
Slökkviliðið beinir þeim tilmælum til fólks að huga að lögnum í híbýlum sínum því í miklu frosti getur hæglega frosið í lögnum og þær sprungið.