Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

60 milljónir til Bergsins Headspace

12.04.2019 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hreiðar Þór Björnsson - RÚV
Ráðherrar fimm ráðuneyta ætla að verja samtals 60 milljónum króna næstu tvö ár í tilraunaverkefnið Bergið Headspace. Um er að ræða nýja þjónustu fyrir ungt fólk sem glímir við andleg vandamál.

Geðhjálp og Bergið héldu málþing um geðheilbrigði ungs fólks í dag þar sem þetta var kynnt. Það eru Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem ákveða að veita fé til þessa nýja úrræðis.

Í tilkynningu frá félags- og barnamálaráðuneytinu segir að einnig sé gert ráð fyrir að leitað verði eftir stuðningi meðal fyrirtækja og annarra aðila sem bera samfélagslega ábyrgð.

Bergið Headspace opnar í sumar og verður fyrsta lágþröskuldarþjónustan fyrir ungt fólk með andleg vandamál. Um er að ræða þjónustu að ástralskri fyrirmynd. Á málþinginu í dag flutti Patric McGorry, stofnandi Headspace, erindi. Hann segir hugmyndina snúast um eitt þjónustustopp fyrir ungt fólk. Þangað geti ungt fólk sem finnur fyrir streitu, vandamálum eða geðröskunum fengið aðstoð fagmanna í öruggu rými.

Það er Sigurþóra Bergsdóttir, móðir Bergs Snæs Sigurþórssonar sem tók eigið líf fyrir þremur árum, sem stendur að Berginu Headspace ásamt Dr. Sigrúnu Sigurðardóttur, lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. Bergið verður til húsa við Suðurgötu 10 í miðbæ Reykjavíkur. Sigurþóra hefur sagt að fólk eigi að geta leitað til Bergsins við minni tilefni en í önnur úrræði fyrir ungt fólk í vanda.

„Þetta er einskonar fyrsta stigs þjónusta þannig að það þarf enga tilvísun eða greiningar eða í raun og veru aðrar ástæður aðrar en þær að fólk finnist það þurfa svolítinn stuðning,“ segir Sigurþóra.

Hún segir mikilvægt að stjórnvöld komi að þessu verkefni því um leið verði til tengsl milli nýja úrræðisins við til dæmis heilbrigðiskerfið og lögreglu.

„Sveitarstjórnarráðherra bætist þarna við sem er þar með er að ýta undir það að við getum boðið upp á þjónustuna í gegnum fjarþjónustu til ungmenna utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir hún.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir enn fremur að samhliða uppbyggingu Bergsins Headspace verði gerð rannsókn á líðan barna og ungmenna á Íslandi. „Kannaðar verði mögulegar ástæður þess að þau upplifa vanlíðan og kvíða, þjónustuúrræði kortlögð sem og nýting þeirra og árangur. Markmiðið er að innan árs liggi fyrir heildarmynd af kerfinu og tillögur um umbætur.“

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV