Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

60 lögfræðingar á atvinnuleysisskrá

28.10.2013 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Einyrkjum í lögmannastétt hefur fækkað og fleiri lögmenn starfa á stærri lögmannsstofum. Lögmönnum hefur fjölgað um 31 prósent síðustu sex ár, helmingur þeirra er undir fertugu. Þetta kemur fram í könnun sem gerð var fyrir Lögmannablaðið í haust og sagt er frá í nýjasta tölublaði þess.

Sambærileg könnun var gerð fyrir sex árum. Þá störfuðu 80 prósent lögmanna sjálfstætt en það hlutfall er 70 prósent nú. Í leiðara blaðsins skrifar Árni Helgason, héraðsdómslögmaður um könnunina og segir þar að hlutfall lögfræðinga á hvern íbúa sé hærra hér en víðast hvar annars staðar.

Um 60 lögfræðingar hafi verið á atvinnuleysiskrá undanfarið, það hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum. Fjölgun lögfræðinga rekur Árni til fjölgunar lagadeilda, nú útskrifist þeir frá fjórum lagadeildum í stað þess að ein deild útskrifi 30-40 lögfræðinga á ári og þeir gangi inn í þau störf sem séu í boði. Þó svo að lagadeildum fækki telur hann ekki líkur á að gamla ástandið komi aftur.