Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

58 m/s vindhviða í Öræfum í morgun

14.01.2020 - 08:42
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurþáttaspá - Veðurstofa Íslands
Það er víða mjög hvasst á landinu öllu. Mest hefur blásið á Vestfjörðum og í Öræfum. Meðalvindhraði mælist víða á fjallvegum og við fjöll allt upp undir 25 m/s. Vindhviður hafa hins vegar náð meira en tvöföldum þeim hraða.

Ein hvassasta hviðan í óveðrinu sem nú gengur yfir landið mældist á Sandfelli í Öræfum um klukkan 6.30 í morgun. Á vef Vegagerðarinnar sést að sjálfvirka veðurstöðin mældi hana 57,9 m/s. Vindhraðinn jókst hratt þar í morgun eftir að hafa dottið niður um klukkan þrjú í nótt. Á tímabili var meðalvindur yfir 30 m/s.

Í íslensku er að finna fjölda hugtaka um veður. Í gamla vindstigakerfinu var veðurhæðinni gefið nafn eftir styrk og það hefur svo verið heimfært á m/s. Þarna má finna hugtök allt frá logni, stinningsgolu og kalda, upp í storm og ofsaveður. Efsta stigið heitir fárviðri og á við um 32,7 m/s meðalvind eða meira.

Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir Suðausturland til hádegis í dag vegna norðaustan roks og skafhríðar með lélegu skyggni. Appelsínugul viðvörun er einnig í gildi fyrir Vestfirði og fellur hún ekki úr gildi fyrr en á miðnætti. Þar er spáð snjókomu, skafrenningi og norðaustan stormi eða roki.